
Ný verslun Nettó mun opna á Aðaltorgi í Reykjanesbæ í bráð. Verslunin verður í þriggja mínútna fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli sem mun auðvelda ferðalöngum aðgengi að verslun og þjónustu á leið til eða frá landinu.
Fyrsta skóflustungan fyrir verslunina var tekin í síðustu viku en verslunin verður 1400 fermetrar að flatarmáli og verður ein að grænum verslunum Nettó.
„Það er mikill heiður fyrir okkur að fá að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem á sér stað á svæðinu.
Verslunin er ein af þeim sem við erum að byggja frá grunni í samstarfi við aðstendur Aðaltorgs og við erum gífurlega spennt fyrir því að taka þátt í ferlinu frá upphafi,“ er haft eftir Gunni Líf Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra verslunar- og mannauðssviðs hjá Samkaupum í tilkynningu.
Heimild: Mbl.is