Home Fréttir Í fréttum Unnið að hertum verktakareglum hjá borginni

Unnið að hertum verktakareglum hjá borginni

121
0
Mynd: RÚV
Borgarstjóri vill koma í veg fyrir að verktakar á vegum borgarinnar ráði undirverktaka sem brjóti á starfsfólki. Verið er að endurskoða útboðsreglur borgarinnar í kjölfar lögreglurannsóknar á meintum lögbrotum verktakafyrirtækja.

Lögreglan rannsakar þessa dagana fimm verktakafyrirtæki sem grunuð eru bæði um skattaundanskot og brot á kjarasamningum auk þess sem aðbúnaði verkafólks sé ábótavant. Fyrirtækin hafa verið í framkvæmdum víða um borgina – meðal annars í miðborginni.

<>

Borgarstjóri fagnar því að verið sé að fylgja málinu fast eftir. „Við viljum vinna gegn öllum skattaundanskotum og að sjálfsögðu allri vondri meðferð á verkafólki.“

Dagur vill tryggja í gegnum útboðsreglur að verktakafyrirtæki sem vinni beint fyrir borgina séu með allt sitt á hreinu. „Innkauparáð borgarinnar er nú að fara yfir það hvernig við getum komið í veg fyrir að þeir sem við ráðum til verkefna séu síðan með undirverkataka sem séu hugsanlega að brjóta á fólki.“

Slíkt hafi verið gert í öðrum löndum. Dagur telur mikilvægt að borgin, verkalýðsfélög, skattayfirvöld og ríkið standi saman og hyggst meðal annars funda með ASÍ um málið á næstunni.

Hefur borgin þá ekki haft bolmagn til þess að koma í veg fyrir að svona fyrirtæki standi að uppbyggingu í Reykjavík hingað til? „Þar getur verið að lög setji okkur skorður. Einkaaðilar ráða auðvitað hverjir þeir ráða til verkefna. Við erum auðvitað stór kaupandi að verktöku og þjónustu og eigum að gæta þess að okkar reglur séu í lagi.“

Heimild: Rúv.is