Home Fréttir Í fréttum Samið um uppbyggingu 144 íbúða við Hafnarfjarðarhöfn

Samið um uppbyggingu 144 íbúða við Hafnarfjarðarhöfn

208
0
Mynd: ASK arkitektar

Fyrsti samningurinn um uppbyggingu á hafnarsvæðinu samþykktur í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

<>

Samningur um uppbyggingu á blandaðri byggð 144 íbúða við Hvaleyrarbraut 26-30 í Hafnarfirði var samþykktur samhljóða í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, miðvikudaginn 19. júní.

Hafnarfjarðarbær hefur lagt áherslu á að þétta byggð á ákveðnum svæðum og er nú að hefjast uppbygging á þéttingarreit norðan Hvaleyrarbrautar. Uppbyggingin tengist metnaðarfullri uppbyggingu bæjarins á Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði.

„Það er mjög ánægjulegt að fyrsti samningurinn um uppbyggingu á hafnarsvæðinu sé nú í höfn. Áform um íbúðabyggð þar hafa verið í undirbúningi um nokkurt skeið og því er þessi samningur stórt skref,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar er einhuga um áframhaldandi uppbyggingu í bæjarfélaginu og leggjum við áherslu á fjölbreyttar íbúðir á ólíkum svæðum bæjarins. Hafnarsvæðið er mjög spennandi valkostur og lykilsvæði í Hafnarfirði í þéttingu byggðar. Þessi samningur markar ákveðið upphaf í uppbyggingu á svæðinu og gefur tóninn fyrir það sem koma skal.“

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri ritar hér undir, ásamt forsvarsmönnum Fjarðamóta og Hagtaks. Frá vinstri: Bergþór Jóhannsson og Jóhann Bergþórsson fyrir Hagtak, Rósa Guðbjartsdóttir, Óttar Arnalds Hjálmar R. Hafsteinsson, fyrir Fjarðarmót.

Ný blönduð byggð með íbúðum og þjónustustarfsemi

Hafnarfjarðarbær horfir nú til fleiri svæða í sveitarfélaginu í því skyni að byggja upp blandaða byggð með íbúðum og þjónustustarfsemi. Það er gert í kjölfar samþykktar á nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, Höfuðborgarsvæðið 2040. Á meðal þeirra eru svæði við Hafnarfjarðarhöfn og í nágrenni hennar sem hafa hingað til verið ætluð undir atvinnustarfsemi.

Hvaleyrarbraut 26-30 er eitt þessara svæða og nú hefur Hafnarfjarðarbær samið annars vegar við Fjarðarmót um uppbyggingu á lóð nr. 26. Hins vegar við Hagtak hf. og Verkfræðiþjónustu Jóhanns G. Bergþórssonar ehf. um uppbyggingu á lóðunum nr. 28 og 30.

Heimilt er að byggja fjölbýlishús með að hámarki 45 íbúðum á lóðinni Hvaleyrarbraut 26. Á lóð nr. 28 má byggja fjölbýlishús með að hámarki 41 íbúð og á lóð nr. 30 fjölbýlishús með að hámarki 58 íbúðum. Í heild 144 íbúðir.

Gert er ráð fyrir húsnæði undir verslunar- og þjónustustarfsemi á öllum lóðunum auk þess sem Hafnarfjarðarbær hefur áskilið sér rétt til að kaupa tvær íbúðir í hverju fjölbýlishúsi, eða sex íbúðir í heild.

Iðnaðarbyggingar víkja fyrir breyttri starfsemi með auknu þjónustustigi

Bæjarstjórn samþykkti breytingu á aðalskipulagi bæjarins 2013-2025 þann 31. ágúst 2022 og Skipulagsstofnun staðfesti þær 13. janúar 2023.

Aðalskipulagsbreytingin nær til landsvæðis lóðanna Hvaleyrarbrautar 20-32 og tekur til þess að iðnaðarbyggingar víki fyrir breyttri starfsemi með auknu þjónustustigi á lóðum, í samráði við lóðarhafa. Einnig að á svæðinu verði miðsvæðisstarfsemi með áherslu á verslun og þjónustu og heimild fyrir íbúðir á efri hæðum.

Athugið að myndirnar sem fylgja fréttatilkynningunni eru aðeins til viðmiðunar um hugsanlegt útlit nýju húsanna. Myndir/ASK arkitektar

Samspil hafnar og bæjar

Uppbyggingin á hafnarsvæðinu í heild sinni mun, samkvæmt samþykktu rammaskipulagi, styrkja samspil hafnar og bæjar með áherslu á mótun strandlengjunnar, bættum samgöngum og tengingum að miðbæ og þéttingu byggðar við höfnina.

Almenningsrými verður límið í skipulagi hafnarsvæðisins á milli mismunandi þróunarreita og myndar samfellda byggð. Gert er ráð fyrir almenningssvæði í háum gæðaflokki, fjölbreyttri atvinnu og íbúðum í nánum tengslum við það ásamt afþreyingu. Þannig laðar höfnin að sér öflugt mannlíf og betri upplifun.

 

Heimild: Hafnarfjörður