Loftmynd sem Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður úr björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, tók í gær sýnir glöggt hversu varnargarðarnir við Grindavík komu að góðum notum og forðuðu bænum frá gríðarlegu miklu tjóni.
„Þessi mynd sýnir svo vel hvað varnargarðarnir eru öflugt mannvirki og það er óhætt að segja að þeir hafi heldur betur sannað gildi sitt og komið í veg fyrir gríðarlegt tjón,“ segir Otti við mbl.is.
Eldgosið, það áttunda í röðinni á síðustu þremur árum á Reykjanesskaganum og það kraftmesta, hófst með látum um hádegisbilið í gær og á tímabili voru margir innviðir í hættu en í gærkvöldi dró nokkuð úr virkni gossins. Virknin hefur haldist nokkuð stöðug í nótt.
„Ég var þarna á staðnum og krafturinn í gosinu á tímabili var gríðarlega mikill. En sem betur fer dró úr því og nú þegar ég tala við þig lítur þetta bara vel út.
Nú þarf að fara að huga að næstu skrefum og það er ýmislegt sem þarf að huga að en við myndum ekkert kvarta ef þessari eldgosahrinu færi nú að ljúka,“ segir Otti, sem steig til hliðar sem formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar í byrjun apríl og sinnir nú björgunarsveitarstörfum fyrir Þorbjörn.
Ákveðin staðarþekking skiptir miklu máli
Otti segir að í nógu hafi verið að snúast í gær og fram á kvöld eða fram að úrslitaleik Grindavíkur og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik.
„Það verða til mörg verkefni í svona aðstæðum og ákveðin staðarþekking skiptir miklu máli þegar eitthvað svona gerist,“ segir Otti, sem var að kanna aðstæður á Suðurstrandarvegi þegar mbl.is náði tali af honum.
„Ég er við Suðurstrandarveginn og er að skoða hvort hann sé eitthvað í hættu. Mér sýnist svo ekki vera,“ segir Otti en á tímabili óttuðust menn að hraun myndi ná að veginum. Það fór hins vegar yfir Grindavíkurveginn og Nesveginn.
Heimild: Mbl.is