Stag slitnaði í mastri fjarskiptastöðvar Bandaríkjaflota í gær þegar hraun rann að varnargörðum sem settir höfðu verið upp umhverfis stöðina.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir mastrið þó alveg eiga að þola slíkt.
„Jafnvel þó það færi annað stag,“ bætir hann við.
Til útskýringar höfðu verið gerðar varnir í kringum stögin, auk þess sem settur hafði verið upp varnargarður við stöðina. Víðir segir hraun hafa runnið á þessar varnir í gær en ekki farið yfir þær.
Hraun rann skammt frá skarðinu
Fjarskiptastöð Bandaríkjaflota liggur vestan Grindavíkur og einkennist af háu mastri.
mbl.is greindi frá því í gær að hraunbreiðan hefði náð að varnargörðunum við fjarskiptastöðina, en vegur klýfur varnargarðana við mastrið og rann hraunið skammt frá skarðinu.
Heimild: Mbl.is