Home Fréttir Í fréttum Hrafnshóll vill klára húsbyggingar en Brák hyggst rifta samningum

Hrafnshóll vill klára húsbyggingar en Brák hyggst rifta samningum

128
0
Fjölbýlishús með tíu íbúðum í Fellabæ sem átti að vera tilbúið í júní í fyrra en Hrafnshóll telur sig geta klárað húsið á 8 vikum. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Brák íbúðafélagi og fyrirtækinu Hrafnshóli ber ekki saman um hvað hefur valdið miklum töfum á byggingu fjölbýlishúsa í Fellabæ og á Seyðisfirði. Hrafnhóll segir íbúðafélagið vanfjármagnað en Brák hafnar því og undirbýr riftun samninga vegna tafa.

<>

Framkvæmdastjóri Hrafnshóls segir það standa vel og geta lokið við smíði íbúða í Fellabæ og á Seyðisfirði. Honum kemur á óvart að Brák – íbúðafélag vilji að aðrir klári íbúðirnar vegna tafa.

Miklar tafir á Seyðisfirði og í Fellabæ
Fram kom í fréttum RÚV í gær að Brák íbúðafélag í eigu sveitarfélaga á landsbyggðinni ætlaði að taka húsbyggingarverkefni af fyrirtækinu Hrafnshóli og búið væri að finna aðra verktaka til að klára húsin – 10 íbúða fjölbýlishús í Fellabæ og 8 íbúðir fyrir eldri borgara á Seyðisfirði.

Bæði framkvæmdastjóri Brákar og stjórnarformaður fullyrtu að þolinmæðin væri á þrotum vegna tafa á verkunum en húsin áttu að vera tilbúin fyrir um ári síðan.

Fréttastofa leitaði eftir upplýsingum frá Hrafnshóli um stöðu verkefna fyrirtækisins á Austurlandi í tölvupósti áður en fréttin var unnin en fékk engin viðbrögð og því voru sjónarmið fyrirtækisins ekki verið með í fréttinni sem hefði verið betra.

Hrafnshóll sé í góðri stöðu til að ljúka verkefnum
Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Hrafnshóls, stígur nú fram og hafnar því að staða fyrirtækisins sé eins og skilja mátti af fréttinni. Fyrirtækið standi vel fjárhagslega og sé í góðri stöðu til að ljúka við smíði íbúða í Fellabæ og á Seyðisfirði.

Hann viðurkennir tafir en segir að þær megi líka rekja til þess að Brák íbúðafélag hafi verið vanfjármagnað og að snemma í verkunum hafi Brák ekki staðið við greiðslur samkvæmt verksamningum.

Þá séu enn útistandandi verulegar fjárhæðir í ógreiddum reikningum Brákar auk þess sem Hrafnshóll er jafnframt í sjálfskuldarábyrgð fyrir 200 milljóna króna framkvæmdaláni fyrir Brák en lánið hefur verið í vanskilum hjá viðskiptabanka undanfarna 8 mánuði.

Brák hafnar þessum fullyrðingum og segir verkefnin í Fellabæ og á Seyðisfirði full fjármögnuð og allir reikningar greiddir að fullu samkvæmt verkframvindu.

Vegið að Hrafnshóli sem hafi hrundið framkvæmdum af stað
Sigurður hjá Hrafnshóli segir að sér komi á óvart að heyra í fjölmiðlum af því að Brák vilji að aðrir verktakar taki yfir í samninga Hrafnshóls. Slíkt myndi kalla á riftunarmál og frekari tafir.

Ekki verði annað séð en að málflutningur Brákar og fulltrúa Múlaþings sé til þess fallinn að breiða yfir vanda Brákar og valda Hrafnshóli tjóni sem hafi átt stóran þátt í að uppbygging íbúðarhúsnæðis í Fellabæ og á Seyðisfirði fór af stað.

Fundað verði með Brák í þessari viku og lögð fram tímaáætlun um lok framkvæmda. Hægt sé að ljúka við fjölbýlishúsið í Fellabæ á 8 vikum og húsið á Seyðisfirði geti verið tilbúið snemma í haust. Hrafnshóll vilji leysa málið á farsælan hátt fyrir alla aðila.

Samkvæmt upplýsingum frá Brák undirbýr íbúðafélagið hins vegar riftun samninga við Hrafnshól og vonast til að gera lokauppgjör við fyrirtækið í sátt.

Náist ekki sátt í málinu gæti svo farið að enn frekari tafir verði á byggingu húsanna á meðan riftunarmál er leitt til lykta.

Heimild: Ruv.is