Home Í fréttum Niðurstöður útboða Nýr leikskóli rís í Hamranesi

Nýr leikskóli rís í Hamranesi

320
0
Mynd: Hafnarfjarðabær

Í byrjun desember óskaði Hafnarfjarðarbær eftir tilboðum í hönnun og byggingu sex deilda leikskóla við Áshamar 9 í Hamraneshverfi í Hafnarfirði.

<>

Sjö tilboð bárust og samþykkt að taka tilboði Þarfaþings hf. Framkvæmdir við leikskólann eru hafnar sem einkennast af hagkvæmni og nýjum lausnum og leiðum.

Hagkvæm byggingarlausn sem lofar góðu
Í byrjun desember óskaði Hafnarfjarðarbær eftir tilboðum í hönnun og byggingu sex deilda leikskóla við Áshamar 9 í Hamraneshverfi í Hafnarfirði, samtals um 1.200 m2.

Um alútboð var að ræða og bjóðendur beðnir um að vinna samkeppnistillögur að húsnæði fyrir nýja leikskóla.

Sjö tilboð bárust og samþykkti umhverfis- og framkvæmdarráð Hafnarfjarðar á fundi sínum í janúar að taka tilboði Þarfaþings hf. sem bauð 877.544.044.- kr. í verkið.

Kostnaðarviðmið verkkaupa var 984.000.000.- Framkvæmdir við leikskólann eru hafnar sem einkennast af hagkvæmni og nýjum lausnum og leiðum.

Samningur milli Hafnarfjarðarbæjar og Þarfaþings handsalaður. Mynd: Hafnarfjarðabær

„Leikskólabörnum er að fjölga mikið í Hamranesi um þessar mundir enda hefur mikil íbúðauppbygging átt sér stað þar undanfarin misseri.

Ákveðið var að leita nýrra leiða við byggingu leikskóla í hverfinu sem bæði myndi stytta framkvæmdatíma og verða hagkvæmari en hefðbundnar byggingar. Þessi framkvæmd lofar góðu og er tilhlökkunarefni að nýr leikskóli opni og taki á móti yngstu íbúum Hamraness,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Verklok áætluð í febrúar 2025
Þarfaþing hefur þegar hafist handa við uppbygginguna og mun byggja og fullgera húsnæðið án lóðar og bílastæða og skila því fullbúnu til notkunar.

Hugmyndir að skipulagi, lausnum og efnisvali höfðu ákveðið vægi við mat tilboða og á leikskólinn að vera hannaður samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar.

Í því felst að hanna góðar lausnir með jafnrétti og vellíðan alls fólks í fyrirrúmi. Leikskólinn verður byggður upp með Modules timbureiningum sem settar eru saman í verksmiðju við bestu aðstæður.

Einingarnar eru fluttar fullbúnar með veggjum, gólfi og þaki á verkstað og þeim raðað saman teikningum samkvæmt.

Leikskólinn verður á einni hæð í L-laga formi um eitt miðsvæði sem mun halda utan um starfsemina og leikskólalóðina auk þess að mynda skjól.

Hugmynd Þarfaþings þykir stílhrein, heimasvæðin björt, litrík og aðlaðandi, aðkomuleiðir greinilegar og góð tenging milli allra svæða. Gert er ráð fyrir að einingarnar verði fluttar á verkstað í sumar og er undirbúningur og vinna við sökklagerð í fullum gangi.

Jarðvinna og hönnun lóðar einnig langt komin
Jarðvinnu vegna bílastæða og húss er lokið, en Grafa og grjót bauð lægst í þann verklið.

Hafnarfjarðarbær gekk jafnframt núverið til samninga við fyrirtækið Landslag eftir útboð, vegna hönnunar lóðar og bílastæða við nýjan leikskóla.

Hönnun lóðarinnar er komin á lokastig og að lokinni hönnun verður lóðin boðin út. Lóð leikskólans á að vera tilbúin þegar leikskólinn verður opnaður í febrúar 2025.

Heimild: Hafnarfjarðabær