Home Fréttir Í fréttum Íhuga að rifta samningi um dýpkun Landeyjahafnar

Íhuga að rifta samningi um dýpkun Landeyjahafnar

121
0
Frá dýpkun Landeyjahafnar. Mynd: Vegagerðin

Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar segir óásættanlegt að ekki hafi verið unnið að dýpkun Landeyjahafnar um páskana. Vegagerðin hefur margsinnis gert athugasemdir við afköst Björgunar og íhugar að rifta samningi.

<>

Vegagerðin íhugar að segja upp samningi við fyrirtækið Björgun þar sem dýpkun Landeyjahafnar hefur ekki gengið sem skyldi í vetur. Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar bókaði á fundi fyrir helgi óánægju með að fyrirtækið hafi ekki nýtt veður um páskana til að dýpka.

Í fundargerð bæjarráðs var þess getið að ríkisstyrktu vetrarflugi til Vestmannaeyja hafi verið hætt í síðasta mánuði, en bæjarráð og bæjarstjórn hafi ítrekað mikilvægi þess að flugi verði haldið áfram úr apríl „þar sem dýpið fyrir Herjólf er ekki fullnægjandi á rifinu og þarf að treysta á litla ölduhæð til að halda fullri áætlun“.

Dýpkun ekki sinnt um páskana vegna manneklu
Bæjarráð segir auk þess að dýpkun hafi ekki verið sinnt sem skyldi um páskana þrátt fyrir að veður hafi verið gott. Hafi Vegagerðin sagt Björgun hafa borið við manneklu og því hafi ekki verið hægt að senda skipið út til dýpkunar.

„Dýpið á rifinu er hamlandi fyrir siglingar og því algerlega ótækt að ekki séu allir veðurgluggar nýttir. Bæjarstjóri kom þessum athugasemdum á framfæri við fulltrúa Vegagerðarinnar um helgina.“

Í niðurstöðu segir bæjarráð „óásættanlegt að Björgun uppfylli ekki samning um dýpkun með þeim hætti sem gert var um helgina og fer fram á það við Vegagerðina að hún grípi til aðgerða gagnvart félaginu vegna vanefnda á samningi“.

Vegagerðin áður gagnrýnt afköst Björgunar
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við fréttastofu að Vegagerðin hafi áður lýst því yfir að afkastageta Björgunar til dýpkunar í Landeyjahöfn væri ekki í samræmi við kröfur í útboði.

„Þeir hafa ekki getað dýpkað eins mikið eða hratt og ætlast var til,“ segir G. Pétur.

„Við erum margbúnir að tala við þá og erum að gera það ennþá. Það er verið að fara yfir málið og við munum endurskoða það fyrir sumarið hvort að samningi verði rift.“

Samningurinn var gerður fyrir tveimur árum og enn er eitt ár eftir af honum.

Óvenju slæmur vetur
Aðspurður um stöðuna í samgöngumálum til Eyja segir G. Pétur að veturinn hafi verið óvenju slæmur.

„Þetta er búið að vera tiltölulega skaplegt í Landeyjahöfn veturna á undan, þannig að það er alltaf spurning hvað maður miðar við. Er það allra, allra versti veturinn eða hvað? Við erum að reyna að skoða þetta í skynsamlegu ljósi, hvað er best að gera.“

Heimild: Ruv.is