Home Fréttir Í fréttum Fyrsti hluti nýrrar flugstöðvar á Akureyri tilbúinn

Fyrsti hluti nýrrar flugstöðvar á Akureyri tilbúinn

109
0
RÚV – Sölvi Andrason

Fyrstu farþegarnir í millilandaflugi fóru í gegnum nýjan hluta flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli um helgina. Flugvallarstjórinn segir erlend flugfélög sýna vellinum mikinn áhuga.

<>

Farþegar Transavia frá Hollandi voru fyrstir til að fara í gegnum vegabréfaskoðun í nýrri viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli. Farþegar Easy Jet frá London fylgdu svo í kjölfarið.

Segir mikinn mun að fá þessa viðbót
Hátt í 2.000 farþegar fóru um völlinn um helgina og Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi, segir að mikill munur sé að fá þessa viðbót.

„Í raun og veru hefur í gömlu flugstöðinni verið erfitt að taka inn alla farþega í gegnum flugstöðina. Sérstaklega þegar er vegabréfaskoðun eins og í fluginu núna frá London. Sumir hafa ekkert komist inn í flugstöðina strax.“

Fyrstu farþegarnir fara í gegnum vegabréfaskoðun í nýrri aðstöðu
RÚV – Sölvi Andrason

Fyrsti áfangi í stækkun flugstöðvarinnar
Sá hluti sem nú hefur verið tekinn í notkun er fyrsti áfangi í stækkun flugstöðvarinnar. Komufarþegar fara þar í gegn til að byrja með, en áætlað er að ljúka við nýjan innritunarsal í lok júní.

„Og þá kemur ný innritun í raun og veru bæði fyrir innanlands- og millilandsfarþega. Þá getum við farið að taka allt millilandaflug í gegnum viðbygginguna.“

Að því loknu verður gamla flugstöðin tekin í gegn en þar verður öll afgreiðsla fyrir innanlandsflugið. Þeim framkvæmdum á að ljúka fyrir fyrsta september.

Þá verði alfarið hægt að aðskilja allt innanlands- og millilandaflug á vellinum. „Þá fá innanlandafarþegarnir líka góða aðstöðu. Þeir hafa svolítið verið settir út í horn á meðan millilandaflugið er.“

„Mikill áhugi á Akureyrarflugvelli“
Og Hjördís segir fulla þörf fyrir nýja flugstöð sem samanlagt verður um 1700 fermetrar. „Og það er bara mikill áhugi á Akureyrarflugvelli og ég sé bara fram á að þetta aukist.“

Heimild: Ruv.is