Home Fréttir Í fréttum Mjög miklar skemmdir í eldsvoðanum í Fellsmúla

Mjög miklar skemmdir í eldsvoðanum í Fellsmúla

31
0
Lögregla getur líklega ekki rannsakað eldsupptök fyrr en eftir helgi þar sem mikill hiti er enn í húsinu. RÚV – Ragnar Visage

Miklar skemmdir urðu á atvinnuhúsnæði í eldsvoða í Fellsmúla í Reykjavík. Eigandi verslunarinnar Stout segir þar sé að flest ónýtt. Lögreglan segir að ekki sé hægt að rannsaka eldsupptök fyrr en eftir helgi þar sem enn sé of mikill hiti í húsinu.

<>

Miklar skemmdir urðu á atvinnuhúsnæði í Fellsmúla í Reykjavík eftir bruna í gærkvöldi og margir eru að meta stöðuna til að ákveða hvert framhaldið verður.

Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri N1, segir að bíða verði eftir niðurstöðum lögreglu.

„Það er óljóst akkúrat núna hversu umfangsmiklar skemmdirnar eru því lögreglan er enn á vettvangi að sinna rannsóknarvinnu og við höfum ekki fengið aðgang að þeim hluta hússins sem er skemmt,“ segir hann.

RÚV – Ragnar Visage

Ýmir Örn tekur fram að það sé mikil mildi að engir starfsmenn fyrirtækisins voru í húsinu þegar kviknaði í því. Erfitt sé að segja til um hvort þar verður áfram sams konar starfsemi.

„Það er voða erfitt að segja á þessum tímapunkti. Við eigum eftir að leggja mat á það eftir að við fáum húsnæðið afhent og sjá hversu umfangsmiklar skemmdirnar eru og tökum þá ákvörðun í kjölfarið.“

Enn of heitt inni í byggingunni
Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki sé hægt að senda fólk inn í bygginguna til að hefja rannsókn á eldsupptökum þar sem enn sé mikill hiti þar inni. Það verði líklega ekki hægt fyrr en eftir helgi.

Ljóst að flest í Stout er ónýtt
Hólmfríður Guðmundsdóttir, annar eigenda verslunarinnar Stout í Fellsmúla, segir ljóst að flest sem var í henni hafi eyðilagst.

„Það lítur út fyrir að allt sé ónýtt. Það er bleyta þarna inni, ég labbaði þarna inn áðan og það er náttúrlega bara rafmagnslaust, bleyta á gólfum, hræðileg lykt og maður finnur alveg að það var eitthvað að brenna þarna uppi, eitthvað eitrað,“ segir hún.

Heimild: Ruv.is