Home Fréttir Í fréttum Um tvær vikur í að fyrsti hluti varnargarða við Grindavík verði tilbúinn

Um tvær vikur í að fyrsti hluti varnargarða við Grindavík verði tilbúinn

49
0
Mynd: RÚV

Fyrsti fasi varnargarðanna við Grindavík ætti að verða tilbúinn eftir um tvær vikur. Verkfræðingur segir að strax þá muni garðarnir veita mikilvægt viðbragð, þótt áætlanir séu til um miklu stærri garða.

<>

Fyrsti fasi varnargarðanna við Grindavík er á áætlun og ætti vinnu að vera lokið eftir um tvær vikur.

Áætlanir eru til um gerð 7 kílómetra langs garð, sem yrði allt að 6–10 metra hár. Í fyrsta fasa er þó aðeins gert ráð fyrir tveggja kílómetra löngum garði, sem yrði um helmingi lægri.

Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá verkfræðistofunni Verkís, segir að vinna við garðana gangi vel og unnið sé á dag- og næturvöktum.

„Við erum að byrja vestanmegin við Grindavíkurveginn. Við höfum á sama tíma verið að útfæra nýja vegtengingu frá Grindavíkurveginum inn fyrir garðana,“ segir Ari.

Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Verkís, við varnargarða ofan Nátthaga árið 2021.
Mynd: RÚV

Áætlað er að fyrsta fasa ljúki eftir um tvær vikur, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari vinnu eftir það.

En hvaða árangri skila garðarnir ef það gýs og aðeins fyrsti fasinn er klár?

„Það er mjög mikilvægt að hafa þetta fyrsta viðbragð,“ segir Ari.

Garðar, þótt þeir séu aðeins í hálfri hæð, tryggi að fyrstu hraunstraumum sé beygt af leið.

„Við höfum þann möguleika eftir að atburður hefst að hækka garðana hlémegin með því efni sem þar er til staðar. Það er klárlega til verulegra bóta að vera kominn með þessa fyrstu varnarlínu.“

Heimild: Ruv.is