Home Fréttir Í fréttum Vill hefja framkvæmdir á Grundartanga í haust

Vill hefja framkvæmdir á Grundartanga í haust

112
0
Silicor á Grundartanga. - MYND/SILICOR MATERIALS.

Forstjóri Silicor Materials staðfestir að önnur lönd séu nú til skoðunar fyrir 130 milljarða sólarkísilverksmiðju fyrirtækisins vegna óvissu um hvort Landsvirkjun geti útvegað nægilega raforku. Markmiðið er samt enn að framkvæmdir hefjist á Grundartanga í haust.

<>

Verksmiðja Silicor hefur verið í undirbúningi á Grundartanga í þrjú ár og þar er búið að marka henni stóra lóð. Í umræðum á Alþingi fyrir tveimur vikum lýsti Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, áhyggjum yfir því að ráðamenn Silicor væru að skoða aðrar staðsetningar, bæði í Noregi og Danmörku, þar sem erfiðlega gengi að fá nægilega raforku hérlendis.

Forstjórinn Terry Jester og Davíð Stefánsson, fulltrúi Silicor á Íslandi, staðfesta þetta og þau voru raunar að koma frá Noregi frá viðræðum við þarlenda aðila.

Það er mikill áhugi. Þetta er mjög gott verkefni, upp á einn milljarð dala, það skaffar 450 störf,” segir Terry Jester í viðtali í fréttum Stöðvar 2, en hún er jafnframt stjórnarformaður Silicor Materials.

„Það er algerlega kolefnishlutlaust, þessu verkefni fylgir enginn úrgangur. Þetta er gott verkefni, svo það er áhugi í öðrum löndum.
Helst vil ég auðvitað að við gerum þetta hérna, eins og við ætluðum, og ég hef enga ástæðu til að ætla að við gerum það ekki hérna. Við erum að ganga frá öllum samningum.
Ef orkan verður ekki tiltæk þá er það annað vandamál sem þarf að leysa, en það er áhugi í öðrum löndum og ég er ánægð með það. Það verður vonandi önnur eða þriðja verksmiðjan okkar sem við byggjum þar,” segir Terry Jester.

Verksmiðjunni er ætlað að hreinvinna kísil til nota í sólarrafhlöður og yrði stærsta fjárfesting hérlendis frá því stóriðjuframkvæmdunum lauk á Austurlandi. Terry Jester segir stefnt að því að framkvæmdir hefjist í haust. Allir helstu samningar séu á lokastigi, þar á meðal við fjárfesta.

Hins vegar er aðeins búið að tryggja helming þeirra 80 megavatta sem fyrirtækið þarf, frá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur. Terry er hins vegar upplýst um þá stöðu Landsvirkjunar að geta ekki veitt svör um þau 40 megavött sem upp á vantar. Hún kveðst þó vongóð um að lausn finnist í tæka tíð.

„Við getum ekki reist verksmiðjuna án raforkunnar, svo það verður að gerast. Við verðum að tryggja raforkuna í sumar. Annars verðum við að hafa varaáætlun.”

Fram kom í fréttum Vísis síðastliðið sumar að hópur undir forystu Skúla Mogensen, eiganda Wow-flugfélagsins, hygðist stefna Silicor og íslenska ríkinu til að hnekkja þeirri ákvörðun að verksmiðjan þurfi ekki að fara í umhverfismat.

„Við höfum svarað þessari kvörtun. Nú er þetta í höndum dómarans,” segir forstjóri Silicor.

Heimild: Vísir.is