Home Fréttir Í fréttum Ríkið tryggir fjármagn í flutning húsa og atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði

Ríkið tryggir fjármagn í flutning húsa og atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði

69
0
Mynd: Austurfrett.is

Íslenska ríkið hefur ákveðið að auka framlag sitt til flutnings sögufrægra húsa af hættusvæðum á Seyðisfirði. Þá mun það halda áfram stuðningi við atvinnuuppbyggingu á staðnum eftir skriðuföllin 2020.

<>

Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var á Egilsstöðum á fimmtudag.

Atvinnuuppbyggingarverkefninu var komið af stað árið 2021 og voru 215 milljónir settar í það til þriggja ára. Á þessu ári voru 50 milljónir til ráðstöfunar.

Nú hefur verið ákveðið að framlengja verkefnið og veita til þess 25 milljónum á næsta ári. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að nánar verið útfær með heimafólki hvernig fjármagnið verði nýtt, til að mynda hvort hvatasjóður starfi áfram.

Þá ákvað ríkið að tvöfalda framlag sitt til flutnings húsa í bænum, úr 190 milljónum króna í 390 milljónir á næstu tveimur árum.

„Flutningur húsanna hefur reynst kostnaðarsamari en ráð var fyrir gert. Nú ætlum við að leggjast á árarnar með sveitarfélaginu um að flytja húsin með sómasamlegum hætti.“

Flutningur húsa af hættusvæðum á öruggari svæði í bænum er að hefjast. Í ágúst var húsið Garður auglýst til sölu og flutnings á nýja lóð. Húsin sem ríkið ætlar að styðja við flutninginn á eru Símstöðvarhúsið, sem hýst hefur skrifstofur sveitarfélagsins og Angró, sem síðast þjónaði Tækniminjasafni Austurlands.

Angró skemmdist töluvert í skriðunum 2020. Það gaf sig svo endanlega í hvassviðrinu í lok september í fyrra og var rifið. Bæði húsi sem um ræðir voru upphaflega byggð af Otto Wathne.

Heimild: Austurfrett.is