Nýtt deiliskipulag sem mun heimila byggingu íbúða á fimmtán til þrjátíu þúsund fermetrum á Veðurstofureitnum er í bígerð samkvæmt nýlegri skipulagslýsingu Reykjavíkurborgar.
Með deiliskipulaginu mun að auki nýtt húsnæði Veðurstofu Íslands og Veitna rísa.
Í skipulagslýsingu frá Reykjavíkurborg segir að gert sé ráð fyrir að deiliskipulag á reitnum verði unnið sem felur í sér blandaða íbúðabyggð með vistvænum áherslum.
Gert er ráð fyrir námsmannaíbúðum, íbúðum á almennum markaði og sambýli fyrir fimm til sjö íbúa á reitnum. Meðalstærð íbúðanna verði um níutíu fermetrar.
Að auki eru áform um útivistarsvæði, nýtt húsnæði Veðurstofu Íslands við Bústaðaveg sjö og nýjan byggingarreit Veitna undir framtíðarstækkun kaldavatnsgeymis við hlið núverandi geymis.

REYKJAVÍKURBORG
Þá segir í skipulagslýsingunni að gert verði ráð fyrir lágri bílastæðakröfu við blokkirnar þar sem að hluta sé um námsmannaíbúðir að ræða. Þá eigi deilihagkerfið að geta þjónað öllum íbúum reitsins.
Heimild: Visir.is