Home Fréttir Í fréttum Formleg opnun brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót

Formleg opnun brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót

125
0
Gamla og nýja brúin yfir Núpsvötn.

Einbreiðum brúm á Hringvegi (1) hefur nú fækkað um tvær og eru þær því orðnar 29 talsins með tilkomu nýrra tvíbreiðra brúa yfir annars vegar Núpsvötn og hins vegar Hverfisfljót. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu formlega brýrnar tvær í gær, fimmtudaginn 29. júní, með því að klippa á borða við hátíðlega athöfn á brúnni yfir Núpsvötn.

<>

Umferðaröryggi eykst til muna með nýju, tvíbreiðu brúnum og þær stuðla að greiðari samgöngum. Áður var brúin yfir Núpsvötn sú brú þar sem flest slys hafa orðið við einbreiða brú á Hringvegi.

Bergþóra Þorkelsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson munda skærin á Núpsvatnabrúnni.

Verkið; Hringvegur (1) um Hverfisfljót og Núpsvötn, var boðið út sumarið 2021. Var verksamningur við ÞG-verk ehf. undirritaður 6. ágúst 2021. Framkvæmdir hófust í september sama ár, en áður hafði brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar lokið niðurrekstri staura vegna brúarinnar yfir Núpsvötn.

Eftirlit með verkinu var boðið út og annaðist verkfræðistofan Mannvit eftirlit. Verkefnastjórn og umsjón framkvæmda var í höndum framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.

Meginmarkmið framkvæmdanna var að auka umferðaröryggi með fækkun einbreiðra brúa á Hringveginum og stuðla að greiðari samgöngum.

Árið 1990 voru einbreiðar brýr á Hringvegi hátt í 140 talsins. Þeim fækkaði hratt og voru orðnar um 60 í kringum 2006 og 42 árið 2011. Síðan hægðist verulega á slíkum framkvæmdum og aðeins voru breikkaðar eða byggðar nýjar brýr í stað 6 einbreiðra brúa á átta árum.

Árið 2021 voru brýrnar orðnar 32. Með byggingu tvíbreiðra brúa yfir Jökulsá á Sólheimasandi og nú Núpsvötn og Hverfisfljót eru einbreiðu brýrnar á Hringvegi 29 talsins.

ergþóra Þorkelsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson fagna opnun nýrra brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót.

Brúin yfir Hverfisfljót

Nýja tvíbreiða brúin yfir Hverfisfljót er 74 metra löng og er staðsett um 20 metrum neðan við gömlu brúna sem reist var árið 1968 og var 60 metra löng. Einnig var innifalið í verkinu vegtenging og endurbygging á um 2 kílómetra kafla auk gerð áningarstaðar. Brúin og vegir voru hönnuð á hönnunardeild Vegagerðarinnar. Brúin er samverkandi stálbitabrú með steyptu gólfi í þremur höfum. Nýr vegur og brúin eru í nýju vegstæði á 1,1 kílómetra kafla og endurbyggður vegur í fyrra vegsvæði einn kílómetri. Byggður var nýr áningarstaður í stað fyrri áningarstaðar sem lenti undir vegtengingu brúarinnar.

Brúin yfir Hverfisfljót var opnuð fyrir umferð í nóvember 2022.

Heiðursmenn og skæravörður. Guðmundur Kristján Ragnarsson og Brian R. Haroldsson og Heiðbjört Harpa Björnsdóttir 5 ára.

Brúin yfir Núpsvötn

Nýja tvíbreiða brúin yfir Núpsvötn er 138 metra löng og kemur í stað brúarinnar sem reist var árið 1973 og er 420 metra löng. Í verkinu var einnig innifalin gerð vegtenginga og endurbygging núverandi vegar á um 2 kílómetra kafla auk áningarstaðar. Brúin, ásamt vegtengingum, var hönnuð af verkfræðistofunni VSÓ Ráðgjöf. Brúin er eftirspennt steinsteypt brú með steyptu gólfi í fimm höfum. Nýr vegur og ný brú eru í nýju vegstæði á 1,1 kílómetra löngum kafla. Einnig var byggður nýr áningarstaður vestan nýju brúarinnar.

Brúin yfir Núpsvötn var opnuð fyrir umferð í byrjun júní 2023.

Lítilsháttar frágangur er eftir sem snýr að landmótun og frágangi aðstöðusvæðis.

Innviðaráðherra og forstjóri Vegagerðarinnar með Amadeus Lotar sem spilaði á sekkjapípu við opnun brúarinnar yfir Núpsvötn.

Umferð á vegkaflanum

Umferð um þennan vegkafla hefur aukist árlega um 11%, að meðaltali, frá upphafi mælinga.

Árið 2022 var ÁDU (meðalumferð á dag, alla daga ársins) 1.152 bílar á sólarhring og 1.828 bílar yfir sumartímann. Spá fyrir ÁDU fyrir árið 2023 er 1.410 bílar á sólarhring, en 2.190 bílar á sólarhring yfir sumartímann (SDU). Til samanburðar má nefna að um aldamótin síðustu voru sambærilegar tölur 202 og 410 bílar á sólarhring.

Umferðaröryggi

Helsta markmið framkvæmdanna var að fækka einbreiðum brúm og auka þannig umferðaröryggi. Brúin yfir Núpsvötn var í lok árs 2022 slysahæsta einbreiða brú landsins. Á árunum 2000 til 2022 urðu fjögur slys á brúnni yfir Hverfisfljót. Á sama tímabili voru slysin á brúnni yfir Núpsvötn 20, þar af eitt banaslys árið 2018 þegar bíll steyptist yfir vegrið brúarinnar með þeim afleiðingum að þrír létu lífið.

Heimild: Vegagerdin.is