Það er niðurstaða skipulagsfulltrúa Reykjavíkur að framkvæmd við fyrirhuguð aðflugsljós að Reykjavíkurflugvelli, vestan Suðurgötu, þurfi að fara í umhverfismat.
Fyrir áratug, eða 19. apríl 2013, undirrituðu Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, og Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, samkomulag um endurbætur á Reykjavíkurflugvelli. Í því fólst m.a. að heimila uppsetningu aðflugsljósa við enda 13. flugbrautar (austur-vestur-brautin). Með tilkomu ljósanna myndi öryggi flugvéla sem koma inn til lendingar úr vestri yfir Skerjafirði stóraukast.
Áhrif á náttúru vanmetin
Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 30. mars 2023 var lagt fram erindi Skipulagsstofnunar, þar sem óskað er eftir umsögn um tilkynningu Isavia innanlandsflugvalla ehf. um aðflugsljós við Suðurgötu. Erindinu var vísað til umsagnar verkefnastjóra.
Fram kemur í umsögn verkefnastjórans að í gildi er deiliskipulag Starhagi-aðflugsljós fyrir Reykjavíkurflugvöll, staðfest í B-deild Stjórnartíðinda þann 27. janúar 2017. Verkefnastjórinn tekur undir álit sérfræðinga deildar náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg, sem segja að þrátt fyrir ágætlega ígrundaða tillögu að deiliskipulagsbreytingu hafi áhrif á náttúru og vistkerfi skipulagssvæðisins verið vanmetin. Fjöldi og dreifing byggingarreita leiði óneitanlega til þess að rask á svæðinu verði allverulegt og að miklu leyti innan við eða í jaðri hverfisverndaðs svæðis.
Einnig taki tillagan ekki tillit til mögulegra neikvæðra áhrifa ljósmengunar á lífríki. Þá séu áhrifin á landslag og upplifun mjög neikvæð og dregið í efa að hægt verði að fella mannvirkin að umhverfinu, þar sem tækifæri til að dylja þau séu mjög takmörkuð á þessu svæði. Ásýnd svæðisins í nánd og allmikilli fjarlægð, sérstaklega frá öðrum hlutum strandlengjunnar, muni því breytast mikið til hins verra.
Skipulagsfulltrúi vill koma á framfæri athugasemdum við efnislega framsetningu skýrslunnar en þar koma fram hæpnar fullyrðingar og kynlegt orðalag, segir verkefnastjórinn í umsögninni. Langt sé seilst í samanburði við aðrar framkvæmdir og uppbyggingarverkefni, t.a.m. mögulega landfyllingu 2. áfanga Nýja Skerjafjarðar en þar hefur endanleg matsáætlun ekki verið kynnt opinberlega.
„Þá er fullyrt að jarðhræringar á Reykjanesskaga hafi gjörbreytt forsendum um staðarval flugvallarins og þá væntanlega vísað í hugmyndir um nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahruni sem er þá (líklega?) sleginn af borðinu.“
Gildishlaðið orðfæri og á köflum furðulegt orðalag, ónákvæmt og hóflaust á við „algjört uppnám“ og „algjöru samræmi“, „litskrúðugur gamall skúr sem verður seint talinn augnayndi“, og að „aðflugsljósin verði líklega vinsælir setstaðir fugla í friði frá köttum“ rýrir trúverðugleika skýrslunnar, segir verkefnastjóri skipulagsfulltrúa í umsögn sinni. Með vísan til gagna málsins telur skipulagsfulltrúi að framkvæmdin eigi að fara í umhverfismat.
Ljós á sjö möstrum
Samkvæmt verklýsingu Isavia verður aðflugsljósunum komið fyrir út frá miðlínu flugbrautarinnar vestan Suðurgötu. Um er að ræða sjö möstur og einn steyptan stöpul. Undirstöðurnar verða steyptar keilur sem standa hálfan metra upp frá jörðu. Ofan á keilunum verður komið fyrir möstrum úr stáli, 2,3-6 metrar að hæð og aðflugsljósin verða efst á möstrunum. Áætlað er að kostnaður verði um 200 milljónir króna.
Aðflugsljósin verða einungis notuð þegar um blindflug er að ræða að flugvellinum eða í skýjuðu veðri. Á öðrum tímum verður slökkt á ljósunum.
Heimild: Mbl.is