Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt að rifta megi verksamningi við verktakafyrirtækið Rizzani de Eccher um byggingu nýs Kársnesskóla við Skólagerði. Atkvæði voru greidd um riftun samningsins við ítalska verktakann á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafði myglusveppur greinst í ókláraðri byggingunni og í ljós kom m.a. að nýir gluggar hennar láku.
Að sögn Ásdísar Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, var lagt til að samningnum yrði rift þar sem upp hefðu komið gallar á unnu verki verktakans og hann ekki sinnt fullnægjandi úrbótum, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir.
Aðspurð kvaðst Ásdís ekki geta tjáð sig um smáatriði málsins að svo stöddu, en að markmið Kópavogsbæjar væri að byggingunni yrði komið í viðunandi horf og yrði lokið fyrri hluta árs 2024.
Kársnesskóli við Skólagerði var rýmdur vegna rakaskemmda og myglu í febrúar 2017. Húsið var dæmt ónýtt í kjölfarið og það rifið í lok árs 2018 og í ársbyrjun 2019. Nemendur gömlu byggingarinnar við Skólagerði voru fluttir í húsnæði skólans við Vallargerði, en aðeins tveimur árum síðar greindist einnig mygla í skólastofu þar.
Niðurstöður útboðs í byggingu skólans voru kynntar í febrúar árið 2021. Lægsta tilboð átti ítalska fyrirtækið, upp á 3,20 milljarða, en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á tæplega 3,7 milljarða. Ístak átti næstlægsta tilboð, tæplega 3,24 milljarða, og eftir fylgdu Íslenskir aðalverktakar með tilboð upp á rúmlega 3,28 milljarða.
Bygging nýs Kársnesskóla var ætluð fyrir leikskóla og yngri deildir grunnskóla, þ.e. börn á aldrinum eins til níu ára. Fyrirhugað var að hefja þar kennslu haustið 2023. Gert var ráð fyrir að framkvæmdum lyki í þessum mánuði.
Tillaga um riftun var samþykkt með átta atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vina Kópavogs, sem studdu meirihlutann, gegn tveimur akvæðum Pírata og Samfylkingar. Annar fulltrúi Samfylkingar sat hjá.
Heimild: Mbl.is