Home Fréttir Í fréttum Brimborg: Stefnt er að byggingu 4-5 þúsund fermetra húsnæðis í Hádegismóum

Brimborg: Stefnt er að byggingu 4-5 þúsund fermetra húsnæðis í Hádegismóum

193
0
Hádegismóar Mynd: Byggingar.is

Brimborg hyggst flytja starfsemi Volvo atvinnubifreiða upp í Hádegismóa. Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fimmtudaginn afhendingu lóðar og sölu byggingarréttar til Brimborgar. Söluverðið nemur 228 milljónum króna.

<>

„Vöxturinn hjá okkur í fyrra á sviðinu var 56% og við reiknum með 20% vexti á þessu ári þannig að það er orðið ansi þröngt um okkur,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar. Því vonast Egill til að takist að flytja þennan hluta starfseminnar strax á næsta ári.

Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar, segir vöxt í sölu atvinnutækja mikinn.

Egill býst við að byggt verði á 4-5 þúsund fermetrum af lóðinni sem í heild er 14 þúsund fermetrar. Hönnunarvinna standi þó enn yfir og því liggi endanlegur kostnaður eða stærð bygginga ekki fyrir.

Forstjórinn segir starfsemina sem flytja á upp í Hádegismóa vera eina þá stærstu á landinu á sviði atvinnutækja. Áformað sé að hún velti 2,5 milljörðum króna á þessu ári.

Egill segir að aukin sala atvinnutækja tengist auknum umsvifum í bæði byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Sala verktakabifreiða og vinnuvéla sé farin að aukast á ný eftir hrun. Þá hafi sala á rútum aukist verulega frá hruni. „Þær taka alveg gríðarlega til sín í þjónustu því það er nánast verið að keyra þetta allan sólarhringinn,“ segir Egill.

„Það er styrkur í að þetta komi frá nokkrum greinum en hangi ekki bara á einni grein,“ segir Egill að lokum.

Heimild: Visir.is