Öll starfsemi leikskólans Garðasels á Akranesi hefur nú verið flutt í nýja skólann við Asparskóga. Þetta kemur fram í tilkynningu. Um er að ræða stórt og mikilvægt skrefi í Garðaseli og í leikskólastarfi á Akranesi.
Fimm deildir eru í skólanum, fjórar í deildareiningum og elsti hópurinn á Skála á meðan beðið er eftir að tvær deildir klárist.
Enn á eftir að ljúka við nokkur verkefni – og má þar nefna að hurðir vantar á efri hæðina og eru iðnaðarmenn enn við störf við þau verkefni sem enn á eftir að ljúka við.
Margir hafa lagt hönd á plóginn við að koma starfinu í nýja Garðaseli í gang. Má þar nefna að fjórir nemendur úr 10. bekk Grundaskóla tóku að sér það verkefni að setja saman skápa. Á næstu vikum verður starfsfólk Garðasels ásamt nemendum að koma sér enn betur fyrir í nýja húsnæðinu – en skólastarfið er komið í fullan gang.
Ráðgert er að vígja skólann formlega þegar allt er tilbúið, úti og inni, og bjóða íbúum á Akranesi að koma og skoða þetta glæsilega og metnaðarfulla mannvirki.
Heimild: Skagafrettir.is