Home Fréttir Í fréttum Vatnsleki í Foss­vogs­skóla | „Ó­trú­lega svekkt að svona skyldi fara“

Vatnsleki í Foss­vogs­skóla | „Ó­trú­lega svekkt að svona skyldi fara“

139
0
Rýma þurfti húsnæði miðstigs Fossvogsskóla í morgun vegna mikils vatnsleka. Fréttablaðið/Valli

Senda þurfti nem­endur á mið­stigi í Foss­vogs­skóla heim í morgun vegna leka frá þaki og inn í skóla­stofur. Að sögn sam­skipta­stjóra Reykja­víkur­borgar var lekinn það mikill að ekki var hægt að nota stofurnar.

<>

„Börnin voru strax sett í mið­rýmið og í kjöl­farið var byrjað að þurrka upp, kalla á verk­taka og slökkvi­liðið og annað. En svo náttúru­lega sáum við fljót­lega að það var ekki hægt að hafa skóla­starf á sama tíma,“ segir Eva Berg­þóra Guð­bergs­dóttir, sam­skipta­stjóri Reykja­víkur­borgar. Hún segir að bæði hafi verið hringt í for­eldra og þeim sendur tölvu­póstur þess efnis að sækja þyrfti börnin í skólann vegna stöðunnar.

Aðspurð um staðsetningu lekans segir Eva Berg­þóra að það virðist hafa lekið fremst á þakinu við út­veggina þar sem gluggarnir eru.

„Það er búið að vera svo mikið ó­líkinda­tíma­bil í veðri. Bæði mikill snjór og mikill ís og svo kemur þarna asa­hlákan og stíflar niður­föllin og það hefur farið að leka í kjöl­farið,“ segir hún.

Að sögn Evu Bergþóru lak inn í skólastofur frá þaki við útveggina þar sem gluggarnir eru. Fréttablaðið/Valli
Mikill vatnselgur myndaðist fyrir utan Fossvogsskóla í kjölfar asahlákunnar sem spáð var í dag. Fréttablaðið/Valli

Þetta sé þó að gerast út um alla borg þessa stundina, en það sem geri þetta sér­stak­lega baga­legt sé sú stað­reynd að húsnæðið sé til­tölu­lega nýtt. Viða­miklar við­gerðir voru gerðar á húsnæðinu í fyrra eftir að mygla greindist víða í byggingum skólans.

„Skemmdirnar eru ekki veru­legar, en þetta er mikið rask og vesen. Við erum að sjálf­sögðu ó­trú­lega svekkt að svona skyldi fara. Það var vandað af­skap­lega vel til verka við við­gerðir og þetta var langt hönnunar­ferli og farið djúpt í þetta. Öll fram­kvæmdin var undir eftir­liti hjá Eflu, bæði hönnunin og fram­kvæmdin,“ segir Eva Berg­þóra.

„Það verður ítar­lega farið yfir hvað gerðist, hvað hefði betur mátt fara og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur,“ bætir hún við.

Auk slökkviliðs var kallað til verktaka á vegum borgarinnar, meðal annars til að hreinsa snjó, ís og vatn af þakinu. Fréttablaðið/Valli

Eva Berg­þóra segir slökkvi­liðið farið af vett­vangi, en hins vegar séu verk­takar á vegum borgarinnar enn á vettvangi við störf.

„Við erum ekkert að vaða í vatni þannig að það var farið strax í það að hreinsa snjó og ís og vatn af þakinu. Það er hætt að leka núna og það er bara verið að vinna í þessu,“ segir hún.

Eva Bergþóra segir að þrátt fyrir að skemmdirnar séu ekki verulegar sé þetta mikið rask og vesen. Mynd/Aðsend

Heimild: Frettabladid.is