Reitur 13, sem er við hafnarsvæðið á Kársnesinu í Kópavogi, var samþykktur af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í fyrradag. Theodóra Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar, segir skipulagið vera sett fram af fjárfestum og í þágu þeirra.
„Fjárfestarnir sem áttu reitinn lengst af voru með yfirráð yfir um 60% af reitnum, Hjálpasveit skáta og Kópavogsbær áttu rest. Fjárfestarnir komu með tillögu um að fá að deiliskipuleggja allan reitinn en það var aldrei formlega samþykkt í nefndarkerfi bæjarins, aðeins lagt fram og kynnt.
Öll formlegheit við afgreiðslu málsins, þ.e. að einkaaðili fái heimild sveitarstjórnar til að vinna tillögu að deiliskipulagi eins og ber að gera samkvæmt lögum var ekki fyrir að fara. Það fór aldrei í réttan farveg inn í Kópavogsbæ að mínu mati og aldrei skýrt hver væri að stýra ferðinni fjárfestar eða Kópavogsbær. Þeim ber að fá slíka beiðni formlega samþykkta af sveitarstjórn.“ segir Theodóra í samtali við mbl.is.
Fjárfestar vilja bara íbúðir
Hafnarsvæðið nær upp að einbýlishúsabyggð við Þinghólsbraut og er íbúðamagnið 18.800 fermetrar þar sem einungis var heimild fyrir 14.500 fermetrum. Hún segir að ef litið sé til Norðurlandanna megi sjá vel skipulögð hafnarsvæði sem iðar af mannlífi.
„Við hefðum getað tekið reit 13 og skipulagt stórglæsilegt hafnarsvæði, ásamt því að taka mið af reitnum við hliðin á þar sem búið er að gera ráð fyrir þjónusturýmum og skipulagt með heildarsýn fyrir verslun, þjónustu, veitingum og afþreyingu, en í staðinn er verið að byggja íbúðir nánast út í sjó með samgöngustíg á milli hafnarinnar og svæðisins, það eru vonbrigði í mínum huga.“ segir Theodóra.
Theodóra kallar eftir heildarsýn fyrir verslun og þjónustu á hafnarsvæðinu og að það sé ekki í lagi að fjárfestar ráði ferðinni þegar komi að skipulagi, þeir vilji einfaldlega fá sem mest út úr reitnum í íbúðamagni.
„Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að búa til slík gæði er einfaldlega vegna þess að það eru fjárfestar sem ráða ferðinni. Þeir vilja auðvitað bara íbúðir og selja svo skipulagsheimildirnar eins og gert var í þessu tilfelli. Sveitarstjórnin þarf að standa í lappirnar.
Það stóð til dæmis í lýsingunni á reitnum við hliðin á að það ætti að vera 1.000 fermetrar af verslun og þjónustu á aðkomuhæð en þegar tillagan kom þá ætluðu þeir sér ekkert að gera það heldur nánast einungis vera með íbúðir.
Ég óskaði eftir því að vísa því máli til baka og fékk í gegn að þeir færu eftir lýsingunni. Á þessum reit átti að vera 500 fermetrar af verslun og þjónustu en nú er búið að minnka það niður í rúm 200 þar sem gert er ráð fyrir aðstöðu Hjálparsveitarinnar.
Það sem vantar er heildarsýn á verslun- og þjónustu á þessu hafnarsvæði. Tækifærin í Kópavogshöfn eru óendanleg fyrir allskonar þjónustu og afþreyingu. Reitur 13 leikur þar lykilhlutverk því höfnin er beint fyrir framan reitinn og þar fyrir utan eru áform uppi um að stækka höfnina um helming,“ segir Theodóra að lokum.
Heimild: Mbl.is