Home Fréttir Í fréttum Nýtt byggingarleyfi gefið út fyrir leikskóla við Holtsveg

Nýtt byggingarleyfi gefið út fyrir leikskóla við Holtsveg

153
0
Skóflustunga að nýjum leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti. Mynd: Garðabær

Á fundi í síðustu viku samþykkti bæjarráð Garðabæjar afgreiðslu byggingarfulltrúa um að byggja fimm deilda leikskóla að Holtsvegi 20. Byggingarframkvæmdir á lóðinni munu nú halda áfram eftir stutt hlé.

<>

Á fundi í síðustu viku samþykkti bæjarráð Garðabæjar afgreiðslu byggingarfulltrúa um að byggja fimm deilda leikskóla að Holtsvegi 20.

Áður útgefið byggingarleyfi var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála um miðjan desember. Í leyfinu nú felst sú breyting að gert er ráð fyrir að leikskólinn verði fimm deilda í stað sex deilda og einnar hæðar en samkvæmt fyrra leyfi var hluti byggingarinnar tvær hæðir. Byggingarframkvæmdir á lóðinni munu nú halda áfram eftir stutt hlé.

„Undanfarið höfum við unnið að því að leysa þetta verkefni hratt og örugglega, enda mikilvægt að framkvæmdir haldi áfram þannig að leikskólinn geti hafið störf á settum tíma. Næsta skref er að horfa til mögulegra breytinga á deiliskipulagi lóðarinnar til að skólinn geti verið sex deilda. Þær breytingar verða kynntar íbúum og þeim gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum við meðferð málsins,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Árið 2021 var haldin hönnunarsamkeppni um byggingu leikskólans. HuldaJóns Arkitektúr, sastudio og exa nordic hönnuðu leikskólann út frá vinningstillögu í hönnunarsamkeppninni og Þarfaþing ehf. reisir skólann eftir útboð.

Mynd af leikskóla við Holtsveg eftir breytingar og samkvæmt nýju byggingarleyfi.

Ekki er gert ráð fyrir að áhrif á fjölskyldur leikskólabarna verði teljandi. Vegna mikillar fjölgunar barna á leikskólaaldri í Urriðaholti var leikskólinn Urriðaból við Kauptún reistur og þar hófu börn leikskólagöngu í september 2022 en ekki er búið að taka allar deildir skólans í notkun. Þessu til viðbótar er unnið að því að koma upp tímabundnum ráðstöfunum til að geta tekið inn fleiri leikskólabörn á þessu ári.

Urriðaholt – hverfi í vexti

Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem íbúðabyggð er í örum vexti. Hátt í 3200 manns búa nú í hverfinu og gert er ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt.

Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring. Nýi leikskólinn verður staðsettur við Holtsveg, neðan götu þar sem lóð opnast út að grænu svæði sem liggur frá efri hluta holtsins niður í átt að vatninu og Kauptúni.

Heimild: Gardabaer.is