Íslenskum aðalverktökum var á dögunum hafnað um leyfi til að reisa vinnubúðir með svefnaðstöðu á athafnasvæði sínu við Ferjutröð á Ásbrú.
Aðstaðan var ætluð allt að 65 erlendum starfsmönnum fyrirtækisins vegna tímabundinnar veru hér á landi.
Í erindi fyrirtækisins var tekið fram að afar erfitt sé að finna gistingu fyrir slíkan fjölda fólks á Suðurnesjum um þessar mundir.
Þá var tekið fram að aðstaðan sé búin öllum þeim þægindum sem þurfa þykir, þannig sé hvert herbergi búið sturtu og salerni, en að sameiginleg þvottaaðstaða sé í búðunum. Þá yrðu búðirnar tengdar við mötuneyti fyrirtækisins.
Ákvæði skipulagsreglugerðar um vinnubúðir og svefnskála á ekki við, segir í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs varðandi beiðni fyrirtækisins.
Ekki er um að ræða tímabundna starfsemi t.d. á hálendi þar sem húsnæði er almennt ekki fyrir hendi.
Í reynd er um að ræða gistiheimili á athafnasvæði sem ekki er heimilt samkvæmt aðalskipulagi, segir jafnframt og því er erindinu hafnað.
Heimild: Sudurnes.net