Home Fréttir Í fréttum Dæmdur í annað sinn fyrir skattsvik – 16 mánaða fangelsisdómur og 177...

Dæmdur í annað sinn fyrir skattsvik – 16 mánaða fangelsisdómur og 177 milljón króna sekt

506
0
Héraðsdómur Reykjaness. Mynd; Dv.is

Andrei Bukhanevits, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri SA verktaka, hefur verið dæmdur í sextán mánaða fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri einkahlutafélagsins og til þess að greiða tæplega 177 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs.

<>

Andrei var sakfelldur fyrir að standa ekki skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda stóran hluta ársins 2021. Alls var um að ræða 41 milljónir króna í virðisaukaskatt og 29 milljónir í opinber gjöld sem að Andrei sveikst um að greiða samkvæmt dómsorði.

Andrei játaði brot sín skýlaust við meðferð málsins en fram kemur að hann hafi áður gerst sekur um skattalagabrot árið 2012. Þá hlaut hann tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm auk þess sem honum var gert að greiða 100 milljón króna sekt. Þar sem um áratugur er frá fyrra broti hafði það ekki áhrif á dómúrskurðinn nú.

Héraðssaksóknari fór fram á að Andrei yrði gert að sæta atvinnurekstrarbanni, það er að segja banni við því að stofna félag með takmarkaða ábyrgð félagsmanna, að sitja í stjórn, að starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun slíks félags eða fara með meirihluta atkvæðisréttar í því, í allt að þrjú ár.

Ákvæðið, sem var innleitt með lögum árið 2019, var með það að markmiði að stemma stigu við misnotkun á hlutafélagaforminu og kennitöluflakki í atvinnurekstri. Sjaldgæft er þó að farið sé fram á slíkt bann þegar svikist er um að greiða vörslugjöld og því taldi dómari slíkt bann ekki við hæfi.

Eins og áður segir var 16 mánaða fangelsisdómur talinn hæfileg refsing fyrir Andrei auk greiðsla sektar upp á 176.920.000 krónur. Verði sektarupphæðin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins munu 360 dagar bætast við fangelsisdóm Andrei. Þá var honum gert að greiða verjanda sínum 500 þúsund krónur í málsvarnarlaun.

Hér má lesa dóminn í heild sinni

Heimild: Dv.is