Í vikunni tóku fyrstu íbúar í fjölbýlishúsi við Sóleyjarklett, nýja götu í Borgarnesi, við lyklum að íbúðum sínum. Sóleyjarklettur er í útjaðri Borgarness, fyrir ofan höfuðstöðvar Kaupfélags Borgfirðinga við Egilsholt.
Alls eru sex samskonar fjölbýlishús í byggingu á svæðinu og er þetta það fyrsta þeirra sem er tilbúið og tekið í notkun. Verkefnið hófst í byrjun febrúar 2021 með því að byrjað var að sprengja fyrir húsunum.
Þau eru hvert um sig tvær hæðir með fimm íbúðum, fjórum 91 fm og einni 51 fm að geymslum meðtöldum. Það er Slatti ehf. sem byggir húsin, en fyrirtækið var stofnað sem samstarfsfyrirtæki Steypustöðvarinnar, Eiríks J Ingólfssonar byggingaverktaka (EJI ) og Borgarverks.
Upprunalega höfðu þessi þrjú fyrirtæki uppi fyrirætlanir um að byggja mun meira á svæðinu og voru búin að undirskrifa samning þar að lútandi við Borgarbyggð. Þau urðu hins vegar að láta þann samning frá sér vegna annríkis í öðrum verkefnum en eru nú að ljúka við fjölbýlishúsabyggingarnar sem eru á þessum reit.
Í seinni áfanga byggingasvæðsins við Sóleyjarklett er svo gert ráð fyrir parhúsum og einbýlishúsum og verða allt að sextíu íbúðir á svæðinu í heild. Skipulagsvinnu fyrir þann áfanga er ekki lokið.
Að sögn Guðveigar Eyglóardóttur, forseta sveitarstjórnar Borgarbyggðar, verður farið í vinnu við gatnagerð við Sóleyjarklett í sumar og gatan malbikuð. Unnið hefur verið að frekara skipulagi á svæðinu og ný íbúðargata við Kveldúlfshöfða hefur þegar verið kynnt. Þar er gert ráð fyrir 23 íbúðarhúsalóðum sem raðast við götuna sem liggur við Kveldúlfshöfða og tengir Fjóluklett við nýtt íbúðasvæði í Bjargslandi II.
Kaupendur að þessum fyrstu íbúðum í götunni eru Leigufélagið Bríet, Haukur Smári Ólafsson, Fannar Óli Þorvaldsson og Bergur Ingimar Jóhannsson.
Heimild: Skessuhorn.is