Home Fréttir Í fréttum 818 Íslendingar eiga von á endurgreiðslu frá Bauhaus

818 Íslendingar eiga von á endurgreiðslu frá Bauhaus

161
0
Um 800 viðskiptavinir Bauhaus á Íslandi hafa verið rukkaðir í tvígang vegna viðskipta sem þeir hafa átt við fyrirtækið allt frá því í desember í fyrra. Mistökin má rekja til danska færsluhirðisins Nets. Til stendur að leiðrétta mistökin í dag.

Mistökin uppgötvuðust fyrir helgi þegar fjölmargir viðskiptavinir sáu skuldfærslur af debet-reikningum sínum sem þeir könnuðust ekki við. Færslurnar voru allar frá Bauhaus. Færsluhirðir Bauhaus er danska fyrirtækið Nets en greiðslurnar fara þó í gegnum íslensku fyrirtækin Borgun og Valitor. Viðskiptavinir Valitor, sem gefur út Visa-kort, voru ekki rukkaðir tvisvar.

<>

Bergþóra Ketilsdóttir, forstöðumaður viðskiptavers Borgunar, segir að um sé að ræða færslur sem ná allt aftur til desember í fyrra. Svo virðist sem Nets hafi sent inn gamla skrá þannig að skuldfært hafi verið fyrir viðskiptum sem búið var að greiða fyrir. Hjá Borgun voru færslurnar 818 og heildarupphæð þeirra um 7,3 milljónir króna. Allar færslurnar voru af debet-kortum.

Bergþóra segir að þetta sé vissulega bagalegt, enda sé í sumum tilfellum verið að ganga á yfirdráttarheimild viðskiptavina. Borgun hafi sett sig í samband við Nets um leið og málið uppgötvaðist og beðið um að mistökin yrðu leiðrétt. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptabönkunum á að vera búið að bakfæra inn á reikninga þeirra sem korthafa mistökin náðu til.

Heimild: Rúv.is