Home Fréttir Í fréttum 11 þúsund tonn af malbiki

11 þúsund tonn af malbiki

145
0
Mynd: Bragi Valgeirsson - RUV
Næstu vikurnar verður aðeins önnur flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli í notkun meðan malbikunarframkvæmdir standa yfir. 20 ár eru frá því að síðast var skipt um slitlag á vellinum.

Undirbúningur hefur staðið lengi og framkvæmdin er síður en svo einföld. Allt þarf að ganga upp þegar byrjað er að malbika. Umferðarþunginn má ekki vera mikill til að tefja för 12 stórra flutningabíla sem koma með malbikið frá Hafnarfirði.

<>

Í gærkvöldi fluttu þeir 750 tonn. Þá var um 15 prósent af slitlaginu komið á völlinn. Svæðið sem verður malbikað þekur um 95 þúsund fermetra. Til samanburðar er verslunarmiðstöðin Kringlan um 50 þúsund fermetrar.

„Flugbrautirnar tvær eru tæpir 3 kílómetrar að lengd og það eru um 11 þúsund tonn af malbiki sem við erum að endurvinna. Þannig að þetta er gríðarleg framkvæmd“, segir Viðar Jökull Björnsson flugvallarstjóri.

Byrjað er á norður-suður brautinni en til að ljúka við að setja slitlag á báðar brautirnar þarf 20 þurrviðrisdaga.  Verklok eru áætluð 9. júní. Framkvæmdirnar kosta rúman hálfan milljarð króna.

„Núna erum við að endurnýja 20 ára gamalt malbik síðast var skipt um slitlag í allstórri framkvæmt 2001-2002 þegar Reykjavíkurflugvöllur var endurbyggður“. Það kom á óvart hve slitið var lítið enda malbikið sérstaklega blandað til að þola álagið.

Minnkar öryggið eitthvað á meðan þið eruð í þessum framkvæmdum? „Alls ekki, þvert á móti. Framkvæmdirnar eru búnar að fara í gegnum öryggis- og áhættumat“.

Þegar umferðin er hvað mest eru um 300 lendingar og jafnmargar brottfarir frá Reykjavíkurflugvelli. Vegna framkvæmdanna er umferðin núna ekki mikil. Erlendu félögin sem skipta við flugvöllinn vita af framkvæmdunum og því er umferðin minni á meðan á þeim stendur.

„Við erum með tilkynningar til flugmanna svokallað NOTA og upplýsingabréf. Þannig að ég hvet notendur að kynna sér vel aðstæður á Reykjavíkurflugvelli hverju sinni áður en þeir leggja af stað. Eftir samtal okkar við þjónustufélögin þá trúum við því að sumarið verði gott. Við eigum von á mikilli traffík hér í sumar“, segir Viðar Jökull Björnsson, flugvallarstjóri.

Heimild: Ruv.is