Home Fréttir Í fréttum Svig­rúm fyrir auknum kostnaði við hús­byggingar

Svig­rúm fyrir auknum kostnaði við hús­byggingar

175
0
Bergþóra Baldursdóttir segir horfur á fasteignamarkaði ekki jafn dökkar og fréttir síðustu vikna láti í veðri vaka. Mynd: Haraldur Guðjónsson

Miklar hækkanir fasteignaverðs umfram byggingarkostnað ættu að gefa svigrúm gagnvart hækkandi hrávöruverði.

<>

Byggingaraðilar ættu að vera í góðri stöðu til að takast á við hækkandi hrávöruverð eftir miklar hækkanir fasteignaverðs umfram byggingarkostnað síðustu ár að mati Bergþóru Baldursdóttur, hagfræðings hjá Greiningu Íslandsbanka.

Í meira en ár hafa greinendur spáð því að verðþrýstingur á fasteignamarkaði og verðbólga fari að hjaðna, en röskun heimsfaraldursins á aðfangakeðjum og eftirspurn heimilanna eftir íbúðum hefur reynst lífseigari en talið var.

Innrás Rússlands í Úkraínu bætti svo gráu ofan á svart, og verðbólga mælist nú 6,7%, sú mesta síðan 2010. Átökin hafa meðal annars valdið raski á mörkuðum með hrávörur, þar sem verð hafði þegar hækkað mikið í faraldrinum.

Nokkrum áhyggjum hefur verið lýst yfir áhrifum þessa á byggingakostnað og þar með fasteignaverð hér á landi. Viðskiptablaðið hafði eftir Sigurði Brynjari Pálssyni, forstjóra Byko, á dögunum að 90% alls steypustyrktarjárns kæmu frá Hvíta-Rússlandi, og Innherji hafði stuttu seinna eftir eiganda ÞG Verks að verð stálvirkis í nýlegu verkefni hefði verið hækkað um 65%.

Hærra söluverð vegi upp á móti hærri kostnaði
Bergþóra telur þó ekki útséð að hækkanir á hrávöruverði og þar með byggingakostnaði muni leiða til samsvarandi hækkana fasteignaverðs, eða hægja mikið á kólnun markaðarins þegar framboð fer loks að aukast á ný.

„Verðhækkanir á hrávöru erlendis munu auðvitað leiða til verðhækkana hér, og aðilar innan byggingageirans hafa talað um að byggingakostnaður sé á uppleið. Maður veit hinsvegar ekki alveg hvernig þetta mun koma inn í verðlagningu íbúðaverðs, en það mun ráðast að miklu leyti af eftirspurninni.“

Þótt hærri kostnaður við framleiðslu markaðsvöru leiði almennt til hærra verðs bendir Bergþóra á að fasteignaverð hafi þegar hækkað mikið síðustu misseri án þess að samsvarandi kostnaðarhækkanir hafi komið til. Í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út um miðjan mars kemur fram að íbúðaverð sem hlutfall af byggingakostnaði hefur hækkað mikið síðustu ár, og hefur nú ekki verið hærra á þessari öld.

„Mikil hækkun fasteignaverðs hefur óneitanlega komið sér vel fyrir þá sem byggja, og þeir ættu því að vera í frekar góðri stöðu gagnvart þessum hrávöruverðshækkunum. Miðað við hækkun íbúðaverðs umfram byggingakostnað síðustu ár þá ættu þeir alveg að geta sleppt því að fleyta þessum kostnaðarhækkunum áfram út í verðlagið að miklu leyti, og þegar upp er staðið þurfa þeir að verðleggja sig eftir markaðnum eins og aðrir.“

Heimild: Vb.is