Home Fréttir Í fréttum Hafa þurft að skila stofnframlögum vegna lóðaskorts

Hafa þurft að skila stofnframlögum vegna lóðaskorts

193
0
Mynd: Aðsend mynd - Íbúðalánasjóður
Bjarg íbúðafélag hefur þurft að skila inn stofnframlögum vegna þess að lóðir þar sem byggja átti eru ekki tilbúnar. Formaður VR segir lóðaskort standa í vegi fyrir uppbyggingu nýrra íbúða og kallar eftir aðgerðum í húsnæðismálum.

Bjarg íbúðafélag er óhagnaðardrifið leigufélag að danskri fyrirmynd og hefur afhent nærri 700 íbúðir frá árinu 2019. Íbúðirnar eru fyrir fólk sem er virkt á vinnumarkaði, á aðild að ASÍ eða BSRB og er undir ákveðnum tekjumörkum. Í byrjun árs voru um 1400 á biðlista eftir íbúð en nú hægir á uppbyggingu vegna skorts á lóðum.

<>

„Hjá Bjargi íbúðafélagi, erum við að byggja fyrir tekjulægsta fólkið. Við erum að skila inn fjármagni eða stofnfjárframlögum vegna þess að við fáum ekki lóðir eða vegna þess að lóðirnar sem við höfum fengið eru ekki tilbúnar og verða ekki tilbúnar fyrr en eftir nokkur ár,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og varaformaður stjórnar Bjargs.

Ragnar er langþreyttur á að ekkert sé gert til að leysa húsnæðisvandann. Þeim hjá Bjargi hafi tekist að byggja 700 almennar íbúðir sem allar hafi staðist kostnaðar- og tímaáætlun.

Þá reynslu á að nýta hjá Blæ íbúðafélagi, sem ekki fær stofnframlög heldur verða íbúðirnar fjármagnaðar með öðrum hætti. Félagið er lághagnaðardrifið en ekki óhagnaðardrifið eins og Bjarg. Þannig verður hægt að leysa húsnæðisvanda þeirra sem fara yfir tekjumörk Bjargs. Ragnar segir þörfina mikla.

„Við erum klár með hugmyndafræðina og nýtt félag til að byrja að byggja og framkvæma en okkur vantar lóðir. Okkur vantar skilning hjá lífeyrissjóðum til að koma inn sem langtímafjárfestar og þetta er eitthvað sem gæti gert gæfumuninn hvað varðar lífsgæði almennings næstu árin. Og þetta er náttúrlega skelfileg staða að vera með allt tilbúið en geta ekkert gert vegna þess að það vantar lóðir,“ segir Ragnar.

Hann segir að með Blæ sé verið að búa til rekstrarform sem stuðli að búsetuöryggi og uppfylli ávöxtunarkröfur langtímafjárfesta. Í Danmörku séu tíu prósent heildareigna lífeyrissjóðanna í slíkri uppbyggingu á meðan hún sé engin hér.

Á því vill Ragnar sjá breytingu því þetta sé góð langtímafjárfesting sem ekki byggir á sveiflum á húsnæðismarkaði heldur geri samfélagslegt gagn. Fyrsta byggingaverkefni Blæs hefur verið fjármagnað að fullu og lóð er tilbúin í Úlfarársdal fyrir fjölbýlishús þar sem verða á bilinu 36-40 íbúðir.

Heimild: Ruv.is