Enn eitt íbúðahverfið rís í Hafnarfirði
Ásland 4 er nýjasta uppbyggingarsvæðið í Hafnarfirði og munu lóðir á þessu fallega svæði í suðurhlíðum Ásfjalls koma til úthlutunar á árinu 2022, þær fyrstu á vormánuðum. Auglýsing á deiliskipulagi nýs hverfis samhliða auglýsingu á breytingu á aðalskipulagi Áslands 4 og 5 var staðfest á fundi bæjarstjórnar 9. febrúar síðastliðinn.
Í hverfinu munu rísa um 550 íbúðir og er reiknað með að fjöldi íbúa verði um 1.400. Áhersla er lögð á að hverfið tengist innbyrðis með grænum svæðum eða trjábeltum. Í þessum beltum verða göngustígar og fjöldi af gróðursettum trjám sem mynda skjól og náttúrutengsl.
Áhersla á lágreist sérbýli og lítil fjölbýlishús
Ásland 4 er íbúðarhverfi í framhaldi af hverfum beggja vegna, þ.e. Ásland 3 og nýjum íbúðahverfum í Skarðshlíð og Hamranesi. Svæðið markast af Ásfjalli með Mógrafarhæð sem stingst inn í svæðið frá norðri, íbúðarbyggð Áslands 3 í norðaustri, Ásvallabraut í austri og suðri og nýrri íbúðarbyggð í Skarðshlíð og Hamranesi í vestri.
Megináhersla í Áslandi 4 er lögð á lágreistar sérbýlisíbúðir, einbýli, par- og raðhús auk lítilla fjölbýlishúsa með sérinngöngum og óverulegri sameign. Alls um 550 íbúðir, þar af um 200 í einbýlishúsum, um 130 í rað- og parhúsum og um 220 í litlum fjölbýlishúsum. Þá er gert ráð fyrir 3-4 deilda leikskóla.
Stutt er í útivistarsvæðin við Hvaleyrarvatn auk skógræktar og fjölbreyttrar náttúru víðsvegar í upplandi bæjarins. Eitt af aðalmarkmiðum skipulagsins er að nýta vel einstakt útsýni til suðurs í átt að Helgafelli og Lönguhlíðum.
Ný hverfi með um 2.800 íbúðum og 6.500 íbúum
Mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsalóðum í Hafnarfirði líkt og á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þróunarreitir og fjölbýlishúslóðir í Hamranesi í Hafnarfirði fyrir alls um 1.600 íbúðir seldust hratt á árunum 2020-2021. Fyrsta skóflustungan í Hamranesi var tekin í febrúar 2021 og er uppbygging þar í fullum gangi.
Síðustu sérbýlishúsalóðunum í Skarðshlíð, undir alls 285 íbúðir, var úthlutað í febrúar 2021. Í Skarðshlíðinni rísa einnig 26 fjölbýlishús með 231 íbúð. Frumbyggjar í Skarðshlíðarhverfi fluttu inn í hverfið sumarið 2020 og má gera ráð fyrir frumbyggjar í Hamranesi flytji inn á þessu ári. Þessi þrjú nýju hverfi í Hafnarfirði munu til framtíðar litið hýsa um 2.800 íbúðir og 6.500 íbúa.
Heimild: Hafnarfjordur.is