Home Fréttir Í fréttum Ríkiskaup mun sinna innkaupaþjónustu fyrir Vegagerðina

Ríkiskaup mun sinna innkaupaþjónustu fyrir Vegagerðina

70
0

Nýverið undirrituðu Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Halldór Ó. Sigurðsson forstjóri Ríkiskaupa samstarfssamning þess efnis, að Vegagerðin mun notfæra sér innkaupaþjónustu Ríkiskaupa til ársloka 2016.  Samningurinn tekur til allra helstu þátta í innkaupum Vegagerðarinnar og skilgreinir verklag milli stofnananna. Meðal þeirra þátta sem samningurinn tekur til má nefna:

<>
  • Þátttaka í rammasamningakerfi Ríkiskaupa
  • Útboð og innkaup á efni og búnaði
  • Verðfyrirspurnir og innkaup á efni og búnaði
  • Útboð á þjónustu
  • Innkaup á efni og búnaði hérlendis og erlendis
  • Innkaup á bílum skv. bifreiðasamningi ríkisins
  • Kaup og sala fasteigna
  • Sala notaðra bifreiða, tækja og annarra muna

Samstarfssamningur sem þessi er mikilvægt skref í því að tryggja Vegagerðinni sem besta þjónustu í innkaupamálum stofnunarinnar. Vegagerðin hefur þannig greiðan aðgang að traustri ráðgjöf og þjónustu sérfræðinga hjá Ríkiskaupum og allt verklag og verkaskipting eru skýr.

Að sögn Guðmundar Hannessonar, forstöðumanns ráðgjafarsviðs Ríkiskaupa, er samningurinn tímamótasamningur og í raun nauðsynlegt að samstarf af þessu tagi sé vel skilgreint og verkaskipting skýr svo að samstarfið gangi hnökralaust, því oft gengur mikið á og þarf að bregðast hratt við.

Samningurinn byggist upp á því að seinni part árs leggur Vegagerðin fram áætlun um verkefni næsta árs og á þeim grundvelli eru verkefnin skipulögð fram í tímann og haldnir reglulegir stöðufundir. Þróunarverkefni eru líka sérstaklega tekin fyrir m.a. vinna stofnanirnar að sameiginlegum þróunarverkefnum er varða ýmsa þætti innkaupamála s.s. þróun rammasamningakerfisins, rafrænna útboða og kosti rafrænna innkaupa í tengslum við Oracle kerfið.

Heimild: Ríkiskaup.is