Home Fréttir Í fréttum Stórhýsi rís loks við Skógarlind

Stórhýsi rís loks við Skógarlind

214
0
Byggingin við Skógarlind 1 verður bæði nútímaleg og vistvæn, eins og sjá má. Aðsend mynd

Þegar er búið að taka frá meirihluta hátt í 15 þúsund fermetra skrifstofu- og verslunarhúss sem senn rís við Skógarlind.

<>

Vel á annan áratug eftir að framkvæmdir hófust við Skógarlind 1, til móts við Krónuna og Elko í Kópavogi, mun þar loks rísa 12-15 þúsund fermetra bygging á næstunni.

Húsið er teiknað af Zeppelin arkitektum og verður á fjórum hæðum og mun hýsa verslunarhúsnæði á jarðhæð, en skrifstofur á þeim efri.

Þegar er búið að taka frá um 8 þúsund fermetra í húsinu að sögn Kjartans Georgs Gunnarssonar, sem er í forsvari fyrir verkefnið, en hann vill ekki gefa upp um hvaða fyrirtæki er að ræða.

Hann greinir þó frá því að tiltekin fyrirtækjasamsteypa muni taka ríflega helming af því plássi, eða um 4.500 fermetra. Þá verði einn aðili með 2.000 fermetra og annar með 1.200.

Mokað yfir allt eftir hrun
Strax fyrir hrun var byrjað að byggja á reitnum, enda Kópavogurinn í örri þróun, Smáralindin komin í næsta hús og útjaðar bæjarins farinn að teygja sig alla leið á Vatnsenda.

„Það voru komnir þarna sökklar, en eftir að framkvæmdir stöðvuðust í hruninu var svo mokað yfir þetta allt saman. Það er þó búið að jarðvegsskipta lóðinni og það eru mikil verðmæti í því.“

Árið 2014 keypti byggingafélagið Skógarlind ehf. lóðina og hafði ýmsar hugmyndir um þróun hennar. Hugsunin var alltaf að leigja allt húsnæðið einum og sama aðilanum, og strax árið 2015 var félagið komið með leigjanda í huga.

Gáfust upp og seldu Kjartani lóðina
„Ég var að vinna fyrir þá á þeim tíma og við vorum með hugmyndir um að bjóða þetta sameinuðu embætti Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Ríkislögreglustjóra, enda hefði þetta verið fullkomin staðsetning fyrir lögregluna.“ Þær fyrirætlanir stóðu lengi yfir, en allt kom fyrir ekki.

Félagið bauð þá lóðina undir nýtt húsnæði fyrir Skattinn þegar haldin var samkeppni um það. Það fór svo þannig sem kunnugt er að gerður var samningur við Íþöku um að Skatturinn færi í Katrínartún.

Þegar það féll upp fyrir gafst félagið loks upp og setti lóðina á sölu. Kjartan og viðskiptafélagar hans stukku þá til og keyptu lóðina, enda hann þar öllum hnútum kunnugur.

Heimild: Vb.is