Home Fréttir Í fréttum Ásvallabraut í Hafnarfirði opnar fyrir umferð

Ásvallabraut í Hafnarfirði opnar fyrir umferð

165
0
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Kristmundur Einarsson framkvæmdastjóri Snóks hf. klipptu á borða og opnuðu Ásvallabrautina formlega.

Ný Ásvallabraut í Hafnarfirði opnaði fyrir umferð í gær en framkvæmdir við brautina hófust vorið 2020.

<>

Með opnun Ásvallabrautar frá Skarðshlíð að Áslandi 3 eru tengd saman byggðasvæði sitt hvoru megin Ásfjalls og þar með verða Skarðshlíð og hverfin ofarlega á Völlum betur tengd Kaldárselsvegi og Reykjanesbraut.

Einnig mun Ásvallabraut þjóna Hamranesi, nýju hverfi gegnt Skarðshlíð sem er í hraðri uppbyggingu og þeim hverfum sem fyrirhuguð eru í Áslandinu í náinni framtíð.

Hér má sjá hópinn sem mætti til opnunar og tók þátt í samakstri á nýrri leið á milli byggðasvæða í Hafnarfirði.

Mikilvæg framkvæmd fyrir íbúa í Hafnarfirði
Opnun Ásvallabrautar er stór og þýðingarmikil framkvæmd í sögulegu samhengi og í þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað á vinsælu uppbyggingarsvæði sem hefur uppland Hafnarfjarðar í bakgarðinum.

Brautin hefur verið á skipulagi frá 1980 og átti að liggja nær byggð í Áslandi 3 en hagræn greining sem unnin var á árinu 2017 markaði endanlega legu brautarinnar sem í dag er ein akrein í hvora átt með möguleika á breikkun í tvær akreinar í hvora átt.

Með tilkomu Ásvallabrautar verða tvær leiðir úr og í Vallahverfi og stækkandi hverfi Skarðshlíðar og Hamraness.

Gönguleiðir liggja norðan við Ásvallabraut og tengjast íbúðahverfi við Brekkuás. Þá liggur göngustígur samhliða brautinni.

„Ásvallabrautin er afar mikilvægur þáttur í uppbyggingu og eflingu byggðar í Hafnarfirði og mun gjörbreyta samgöngum og aðgengi inn á nýjustu íbúða- og atvinnusvæði bæjarins.

Ný mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg voru tekin í notkun í árslok 2017 og fyrir ári var opnað fyrir umferð á tvöfaldri Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð.

Opnun Ásvallabrautar er enn einn liður í því að greiða samgöngur innan bæjarins og milli hverfa“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

„Ég óska íbúum Hafnarfjarðar og starfsfólki fyrirtækja á svæðinu til hamingju með nýju brautina og veit að hún mun nýtast vel“

Hátt í 3000 íbúðir munu rísa á svæðinu
Öllum lóðum í Skarðshlíð og Hamranesi hefur verið úthlutað eða í heild lóðum fyrir um 2300 íbúðir, þar af rúmlega 1.700 í Hamranesi sem ekki eru enn komnar í sölu.

Uppbygging í Skarðshlíð er langt komin og fluttu fyrstu íbúarnir í sín hús sumarið 2019.

Í Hamranesi eru framkvæmdir hafnar á verktakalóðum fyrir 148 íbúðir í fjölbýli auk þess sem Bjarg íbúðafélag hyggst byggja 148 íbúðir í hverfinu.

Um mitt ár 2021 var þróunarreitum í Hamranesi úthlutað til átján aðila sem eru að vinna deiliskipulag á sínum reitum fyrir alls rúmlega 1400 íbúðir.

Á nokkrum þessara reita eru framkvæmdir við það að hefjast. Áframhaldandi uppbygging í Áslandi er í undirbúningi og er gert ráð fyrir að úthlutun á lóðum í Áslandi 4 fyrir hátt í 500 íbúðir hefjist á vormánuðum 2022.

„Það er mikil eftirspurn eftir lóðum og íbúðum í Hafnarfirði og því hefur allt kapp verið lagt á að hraða skipulagningu og greiða fyrir uppbyggingu bæði á nýjum svæðum og með þéttingu byggðar.

Hafnarfjörður er einstakur og hlýlegur bær sem hefur allt til alls. Það er í forgrunni hjá okkur að sinna núverandi íbúum vel en við munum sannarlega taka fagnandi á móti nýjum Hafnfirðingum“ segir Rósa að lokum.

Heimild: Hafnarfjordur.is