Home Fréttir Í fréttum Opnun ung­barna­leik­skóla í Bríetar­túni í upp­námi

Opnun ung­barna­leik­skóla í Bríetar­túni í upp­námi

164
0
Óljóst er hvenær framkvæmdir á útisvæði hefjast.

Opnun fyrsta ungbarnaleikskólans í Reykjavík tefst vegna deilna. Íbúar hyggjast kæra.

<>

Ekki liggur fyrir hvenær leikskólinn verður opnaður.

Tafir verða á opnun fyrsta ungbarnaleikskóla Reykjavíkurborgar, til stóð að hann yrði opnaður í lok þessa árs á fyrstu hæð í fjölbýlishúsi við Bríetartún 9-11.

Ekki er búið að taka ákvörðum um hvenær húsnæðið verður afhent.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa nokkrir íbúar hússins leitað réttar síns vegna ágreinings um sameiginlega lóð sem að hluta á að verða útisvæði fyrir börnin á leikskólanum.

Til stendur að leggja fram kæru til kærunefndar húsnæðismála.

Gunnar Valur Gíslason er framkvæmdastjóri Íþöku. Mynd/Íþaka fasteignafélag

Íbúar eigi ekki tilkall
Anna Ben Blöndal leikskólakennari var ráðin leikskólastjóri við nýja ungbarnaleikskólann fyrr í sumar.

Hún segir framkvæmdir við húsið ekki hafnar og að húsnæðið hafi ekki verið afhent. „Mín skilaboð eru þau að þessu seinkar,“ segir Anna Ben.

Samkvæmt upplýsingum frá fasteignafélaginu Íþöku er málið í farvegi, lögfræðilegt álit félagsins sé að íbúar hússins eigi ekki tilkall til útisvæðisins. Húsið sé óskipt og tilheyri lóðafélagi Höfðatorgs.

Byggingarfulltrúi gaf út leyfi um miðjan september en framkvæmdir við útisvæðið eru ekki hafnar og ekki ljóst hvenær þær hefjist. Undirbúningur innandyra sé að hluta til hafinn.

Búið að gefa út byggingarleyfi
Samkvæmt svörum Reykjavíkurborgar er ágreiningur um hvort það dugi að leggja fram samþykki 91 prósents eignarhluta á lóðinni fyrir breytingu á hagnýtingu lóðar eða hvort samþykki allra þyrfti að liggja fyrir áður en byggingarleyfið yrði samþykkt.

Þá segir einnig að þar sem leiksvæðið sé einungis 410 fermetrar af sameiginlegri lóð sem sé hátt í 29 þúsund fermetrar hafi niðurstaðan verið sú að nægjanlegt samþykki lægi fyrir til að samþykkja byggingarleyfið. Reykjavíkurborg undirritaði leigusamning við Íþöku í mars.

Afhendingu seinkar
Samkvæmt samningnum átti Íþaka að afhenda borginni fullbúið leikskólahúsnæði með sérútbúnu og afgirtu útileiksvæði án lauss búnaðar 1. nóvember næstkomandi. Ljóst er að sá afhendingartími mun ekki standast.

Samningurinn sem var undirritaður er til tíu ára og er húsnæðið 676 fermetrar á 1. hæð hússins.

Að auki var samþykkt að Íþaka myndi útbúa 520 til 530 fermetra afgirt útileiksvæði áfast við húsið sunnan- og austanvert.

Þá á leikskólinn að hafa aðgang að 300 fermetra útileiksvæði hússins á þjónustutíma leikskólans. Leikskólinn mun einnig hafa aðgang að innisvæði Höfðatorgs þar sem á að útbúa 250 fermetra leiksvæði fyrir börnin, ekki síðar en 2023.

Að tíu árum liðnum hefur Reykjavíkurborg forleigurétt. Leigugjald greiðist frá afhendingu húsnæðis og er það tæpar 2,7 milljónir á mánuði.

Óljóst hvenær leikskólinn opnar
Leikskólinn í Bríetartúni verður fyrsti ungbarnaleikskólinn á vegum borgarinnar fyrir börn frá 12 til 24 mánaða og var gert ráð fyrir að hann tæki til starfa fyrir lok þessa árs.

Ljóst er að leikskólinn verður ekki opnaður á þessu ári. Þá virðist ekki ljóst að fullu hvenær nú sé stefnt að opnun.

Í fundargerð byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 14. september kemur meðal annars fram að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis.

Heimild: Frettabladid.is