Home Fréttir Í fréttum 70 milljón króna tjón á nýbyggingu Félagsbústaða því það gleymdist að skrúfa...

70 milljón króna tjón á nýbyggingu Félagsbústaða því það gleymdist að skrúfa fyrir heita vatnið

232
0
Stjörnugróf 11 í Fossvogi. Mynd/Ernir

Allt að eins árs töf gæti orðið á opnun íbúða fyrir skjólstæðinga Félagsbústaða við Stjörnugróf 11 í Fossvogvogi. Óhapp varð þegar að vatnsslanga gaf sig með þeim afleiðingum að heitt vatn og gufa lék um nýbygginguna.

<>

Tjónið er metið á um 70 milljónir króna sem er rúmlega 25 prósent af heildarbyggingarkostnaði byggingarinnar.

Gleymdist að skrúfa fyrir heita vatnið
Félagsbústaðir standa núna að byggingu tveggja sex íbúðakjarna fyrir skjólstæðinga í Fossvogi. Annarsvegar við Stjörnugróf 11 og hins vegar við Árland 10 en húsin eru sömu gerðar.

Útboð á verkefnum fór fram í byrjun árs 2020 og varð verktakafyrirtækið Ari Oddsson ehf. hlutskarpast með tilboð upp á rúmlega 510 milljónir króna í báðar byggingarnar sem var rúmlega 86% af áætluðum byggingarkostnaði.

Framkvæmdir hófust stuttu síðar og voru verklok áætluð á fyrri hluta þessa árs. Óhapp í árslok 2020 gerði þó útaf við þær áætlanir.

Í svari við fyrirspurn DV segir Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða að gleymst hafi að skrúfa fyrir vatnsslöngu með heitu vatni í byggingunni við Stjörnugróf með þeim afleiðingum að heitt vatn og gufa lék um stóran hluta byggingarinnar.

„Tjónið sem af þessu hlaust er metið á um 70 milljónir króna,“ segir Sigrún í svari sínu.

Stjörnugróf 11 í Fossvogi. Mynd/Ernir

Skammt frá nýbyggingunni í Stjörnugróf er sannkallað víti til að varast, hinn myglaði Fossvogsskóli.

Það skyldi því engan undra að fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar fari að öllu að gát þegar vatnstjón verður.

Mikið púður hefur því farið í að tryggja að mygla komi ekki upp í húsnæðinu í framtíðinni. Upphaflega var reynt að þurrka tréverk í húsnæðinu en að lokum var tekin sú ákvörðun að skipta því öllu út.

Tæplega eins árs töf á verkefninu
Óháð slysinu í Stjörnugróf var líka ákveðið á síðustu stundu að gera breytingar á þökum húsanna sem að þýddi frekar tafir.

Að sögn Sigrúnar eru framkvæmdir hafnar að nýju við byggingarnar og nú er gert ráð fyrir að húsið við Stjörnugróf verði tilbúið í mars á næsta ári en húsið við Árland nokkru fyrr.

Ljóst er að tafirnar eru afar óheppilegar enda er langur biðlisti af skjólstæðingum Félagsbústaða sem bíða eftir því að komast í hentugt húsnæði.

Heimild: Dv.is