Home Fréttir Í fréttum Nýtt rannsóknahús Landspítala rís

Nýtt rannsóknahús Landspítala rís

138
0
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður stýrihóps um framkvæmdir við Landspítala, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Mynd: Eva Björk Ægisdóttir

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, tók í dag fyrstu skóflustungu að nýju 17.500 fermetra rannsóknahúsi.

<>

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, tók í dag fyrstu skóflustungu að nýju rannsóknahúsi ásamt Páli Matthíassyni forstjóra Landspítala, Unni Brá Konráðsdóttur, formanni stýrihóps Landspítala og Jóni Atla Benediktssyni rektor Háskóla Íslands. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Rannsóknahúsið verður um 17.500 fermetrar að stærð og fjórar hæðir ásamt kjallara, tæknisvæði er á fimmtu hæð og hugmyndir eru einnig um möguleika á þyrlupalli.

Í rannsóknahúsi hins nýja spítala sameinast öll rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað.

Rannsóknarhúsið, sem mun rísa vestan Læknagarðs HÍ, er ein af byggingum í heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut.

„Þetta eru stór tímamót og mikill áfangi að sjá draum okkar landsmanna um uppbyggingu Landspítala rætast. Framkvæmdir hér á svæðinu hafa gengið vel og færa okkur nær þvi markmiði að hér verði tekið í notkun nýtt þjóðarsjúkrahús árið 2026.

Nýtt öflugt og tæknivætt rannsóknahús er mikilvægur þáttur í því að geta veitt skilvirka og margbrotna þjónustu fyrir landið allt í takt við nýjustu þekkingu í heilbrigðisvísindum til framtíðar,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra.

„Jarðvinnan hér, sem Háfell ehf. mun sinna, mun kallast á við það stóra uppsteypuverk sem Eykt hf. vinnur að í Hringbrautarverkefninu vegna meðferðarkjarna, nýs þjóðarsjúkrahúss.

Jarðvinnu rannsóknahússins mun ljúka í upphafi næsta árs og þá hefst fljótlega uppsteypan. Stutt er einnig í að vinna við bílastæða- og tæknihúsið hefjist ásamt uppbyggingu bílakjallarans.

Starfsmannafjöldinn hér á svæðinu nálgast 700 manns þegar mest verður, en auk þess er mikill fjöldi ráðgjafa og hönnuða á arkitekta- og verkfræðistofum starfandi við uppbyggingu nýs Landspítala,“ segir Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala, í fréttatilkynningu.

„Rannsóknahúsið og rannsóknastarfsemi Landspítala er og verður áfram ein af burðarásum í fjölþættri starfsemi okkar. Það er gríðarlega mikilvægt að þeir dreifðu og fjölmörgu stofur sem nú eru starfandi á nokkrum stöðum á höfuðborgasvæðinu fái sér einn nútíma samastað.

Starfsemi hússins mun taka mið af því besta og margt sem við erum að kljást við í dag sem þjónustu við sjúklinga mun taka stórstígum framförum.

Það er því gleðilefni að við séum komin jafn langt og raun ber vitni við uppbygginguna hér við Hringbraut,“ er haft eftir Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans.

Heimild: Vb.is