Home Fréttir Í fréttum Félagsstarf Ásatrúarmanna hefst í Öskjuhlíð undir haust

Félagsstarf Ásatrúarmanna hefst í Öskjuhlíð undir haust

78
0
Mynd: facebook - facebook
Jóhanna G. Harðardóttir starfandi allsherjargoði segir hægt en vel miða við byggingu hofs Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð. Nú styttist í að hluti starfseminnar flytji þangað inn.

Ellefu manns komu að stofnun Ásatrúarfélagsins, sumardaginn fyrsta 1972 og varð það löggilt trúfélag rúmu ári síðar.

<>

Jóhanna segir Ásatrú vera lífstíl. Fyrir siðfestuna, heiðnu fermingu, sé lögð áhersla á ábyrgð og virðingu einstaklings fyrir sér, sínum og umhverfi. Það sé það sem flestir segji vera tákn Ásatrúar.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru núna ríflega 5.100 skráð í félagið.

Fyrsta skóflustunga hofsins var tekin eftir almyrkva á sól í mars 2015. Félagið flutti úr húsnæði sínu í Síðumúla í vor.

Frá byggingu á Hofi Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon – RÚV

„Við höfum nú bara tekið þá stefnu að taka þessu rólega og við höfum ekki tekið nein lán til byggingarinnar. Þetta gengur hægt en gengur örugglega. Og ég sé fram á að við ættum að geta hafið okkar farsæla félagsstarf í haust.“

Ýmsar athafnir Ásatrúarfélagsins verða í hofinu, á borð við nafngiftir, siðfestu, hjónavígslur og útfarir.

Hofið verður um áttahundruð fermetrar. Ekki hefur verið ákveðið hvenær hofið sjálft verður vígt.

„Það eru búnir að vera margir borgarstjórar síðan við fengum úthlutað lóð í Öskjuhlíðinni, en núna síðasta árið hefur verið góður gangur í þessu verki.

Núna er bara þessum áfanga að verða lokið að geta komist þarna inn með félagsstarfið okkar og rekið skrifstofuna þaðan. Og við verðum bara feikilega glöð þegar sá kafli er kominn.“

Jóhanna segir faraldurinn hafa sett nokkurt strik í reikning félagsstarfsins.

„En okkur hefur þó tekist það bara mjög vel þar sem er mikið starf úti á landi. Það fer mikið fram bara í goðorðum. Við sjáum fram á að haustið verði nokkuð eðlilegt ef allt gengur vel.“

Er ekki búið að reyna að heita á æsina?  „Jújújú, þeir hafa bara hlustað ágætlega á okkur, finnst okkur.“

Heimild: Ruv.is