Home Fréttir Í fréttum Landsvirkjun stækkar Búrfellsvirkjun um 100 MW

Landsvirkjun stækkar Búrfellsvirkjun um 100 MW

219
0

Landsvirkjun hefur ákveðið að stækka Búrfellsvirkjun um 100 MW og er áætlað að framkvæmdir hefjist á vormánuðum. Stækkunin mun nýta vatn sem í dag rennur framhjá núverandi stöð. Framhjárennslið er aðallega yfir sumarmánuðina og mun stækkunin því aðeins framleiða orku hluta ársins. Uppsett afl hennar mun hins vegar nýtast allt árið um kring til að auka rekstraröryggi og sveigjanleika raforkukerfisins.

<>

Óskað verður eftir tilboðum í vél- og rafbúnað vegna stækkunarinnar á næstu dögum. Efnt var til forvals meðal hugsanlegra bjóðenda og þeim bjóðendum sem uppfylltu skilyrði forvalsins verður gefinn kostur á þátttöku í útboðinu. Gert er ráð fyrir að tilboð verði opnuð í byrjun desember nk. og að gengið verði til samninga í byrjun árs 2016. Byggingarvinna tengd stækkuninni verður boðin út í nóvember næstkomandi.

Hámarkar nýtingu á rennsli Þjórsár við Búrfell
Um 14% af rennslisorku við Búrfellsstöð, eða sem nemur um 410 GWst, renna að jafnaði ónýtt fram hjá stöðinni á hverju ári. Stækkuð Búrfellsvirkjun mun bæta nýtingu á því rennsli. Er það í samræmi við hlutverk fyrirtækisins að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Stækkun ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif
Þann 3. maí 2013 tilkynnti Landsvirkjun Skipulagsstofnun um fyrirhugaðar framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar. Niðurstaða Skipulagsstofnunar, sem birt var 12. júlí 2013, er að stækkun virkjunarinnar um allt að 140 MW sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þar sem um stækkun virkjunar er að ræða, sem ekki skal háð mati á umhverfisáhrifum, fellur framkvæmdin ekki undir verndar- og orkunýtingaráætlun – rammaáætlun – í samræmi við 3. gr. laga nr. 48 frá 2011.

Stöðvarhús neðanjarðar
Lögð er áhersla á að mannvirki verði sem minnst áberandi. Mest áberandi mannvirkin verða aðrennslisskurður, frárennslisskurður og inntaksmannvirki virkjunarinnar. Stöðvarhúsið verður staðsett neðanjarðar í Sámsstaðaklifi. Landsvirkjun mun tryggja aðgengi að útivistarsvæðum í nágrenni Búrfellsstöðvar. Enn fremur er ætlunin að skoða möguleika á að tengja þau svæði við upplýsingamiðstöðvar í Þjórsárdal.

Aukin orkugeta og meiri sveigjanleiki
Áformað er að uppsett afl nýrrar stöðvar verði 100 MW með einni vél, en gert er ráð fyrir að síðar verði hægt að stækka stöðina um allt að 40 MW. Með stækkun Búrfellsvirkjunar má auka orkugetu raforkukerfisins um allt að 300 GWst á ári. Búist er við að eftirspurn eftir raforku aukist á árunum 2016-2020. Bæði er reiknað með því að viðskiptavinum fjölgi á tímabilinu og að núverandi viðskiptavinir óski eftir því að auka við orkukaup sín. Stækkun Búrfellsvirkjunar býður upp á aukinn sveigjanleika í rekstri og gefur möguleika á viðhaldi mannvirkja núverandi stöðvar án þess að orkuvinnsla skerðist að marki.
150 manns á vinnustað á framkvæmdatíma
Áætlað er að hefja framkvæmdir á fyrirhuguðu virkjunarsvæði vorið 2016 og að þær standi yfir til miðs árs 2018. Á síðari hluta ársins 2016 má gera ráð fyrir um 100 starfsmönnum á virkjunarsvæðinu. Allt árið 2017 og fyrri hluta árs 2018 er gert ráð fyrir allt að 150 starfsmönnum á svæðinu. Heildarfjöldi vinnustunda er áætlaður um 400 þúsund, eða um 2000 mannmánuðir. Áætlaður heildarkostnaður er 13-15 milljarðar íslenskra króna. Ráðgert er að gangsetja stækkunina í aprílmánuði 2018.

Ráðgjafaútboð var auglýst 14. mars síðastliðinn og bárust fjögur tilboð. Samið var við Verkís hf. þann 13. júlí 2015 og hefur vinna við hönnun virkjunarinnar hafist.

Heimild: Visir.is