Home Fréttir Í fréttum Dynjandisheiði ekki í útboð á þessu ári vegna fjárskorts

Dynjandisheiði ekki í útboð á þessu ári vegna fjárskorts

83
0
Frá veginum um Dynjandisheiði. Mynd: EGILL AÐALSTEINSSON

Vegagerðin hefur fallið frá því að bjóða út stærsta áfanga nýs vegar yfir Dynjandisheiði í sumar þar sem ekki eru til peningar í verkið. Áformað er þó að bjóða út næsta áfanga vegagerðar um Gufudalssveit í haust.

<>

Eftir að Dýrafjarðargöng voru opnuð síðastliðið haust bundu Vestfirðingar vonir við að kraftur yrði settur í veginn yfir Dynjandisheiði. Fyrsti áfanginn, sem byrjað var á síðastliðið haust, lofaði góðu og höfðu Vegagerðarmenn gefið til kynna að byrjað yrði á fjórtán kílómetra kafla yfir háheiðina í sumar. En núna er ljóst að svo verður ekki, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2.

Kaflinn sem Vegagerðin hafði vonast til að geta byrjað á í sumar er fjórtán kílómetra langur.
GRAFÍK/RAGNAR VISAGE

„Það eru bara ekki meiri auraráð, eins og stendur,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri.

Í sárabætur er þó stefnt á að lengja þann kafla sem núna er unnið að.

„Við munum teygja þetta aðeins þannig að þessi áfangi verður eitthvað örlítið lengri heldur en til stóð.“

-Hvenær má þá búast við næsta útboði?

„Ég geri ráð fyrir að það verði á næsta ári,“ svarar vegamálastjóri.

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri.
Mynd: ARNAR HALLDÓRSSON

Í Gufudalssveit í Austur-Barðastrandarsýslu var byrjað á fyrsta áfanga í fyrrasumar og þar er ætlunin að halda fullum dampi.

„Við erum náttúrlega búin að bjóða út þverun Þorskafjarðar og það er komið í gang. Og við erum að klára veginn inn Gufudalinn.

Í haust gerum við ráð fyrir að bjóða út þverun á Gufufirði og veginn inn Djúpadal. Þannig að það er mikið um að vera þar og langþráð,“ segir Bergþóra.

Séð yfir jörðina Gröf í Þorskafirði.
Mynd: EGILL AÐALSTEINSSON

Þá heldur hún enn í vonina um að samningar takist við landeigendur um hinn umdeilda áfanga um Teigsskóg.

„Nú er þetta orðið bara einn aðili sem er eftir. Þar eru viðræður í gangi og fundir í þessari viku. Þannig að menn eru brattir,“ segir vegamálastjóri.

Heimild: Visir.is