Home Fréttir Í fréttum Nýr sjóður til að efla byggingarrannsóknir

Nýr sjóður til að efla byggingarrannsóknir

114
0

 

<>

Nýr sjóður til að efla byggingarrannsóknir verður settur á fót í samstarfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Hlutverk sjóðsins er að styrkja og efla byggingarannsóknir með áherslu á samfélagslegar áskoranir á sviði mannvirkjagerðar.  Sem dæmi um slíkar áskoranir má nefna rakaskemmdir húsa, hagkvæmar en vandaðar byggingaraðferðir og vistvænar lausnir.

Líkt og fram hefur komið mun Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) verða formlega lögð niður þann 1. júlí næstkomandi en byggingarrannsóknir, sem sinnt var innan hennar, halda áfram í nýju skipulagi.

Stofnað hefur verið Tæknisetur sem mun taka við verkefnum rannsóknastofu byggingariðnaðarins, frumkvöðlaseturs á sviði hátækni auk starfsemi NMÍ á sviði efnis-, líf- og orkutækni.

Öllu starfsfólki efnis- líf og orkutækni og rannsóknastofu byggingariðnaðarins hjá Nýsköpunarmiðstöð verður boðið starf hjá Tæknisetri og starfsemin fer af stað á sama tíma og NMÍ leggst af.

Þá mun tilkoma samkeppnissjóðsins þýða enn meiri slagkraft í byggingarrannsóknir en úthlutun styrkja úr honum verður í höndum sérstaks fagráðs í samstarfi við þessi tvö ráðuneyti sem fjármagna sjóðinn.

 

RB-blöðin til HMS – aukinn upplýsingamiðlun til fagfólks og almennings
Á sama tíma mun útgáfa Rb-blaða flytjast til HMS. Í RB-blöðunum er fjallað um helstu málefni sem snerta byggingariðnaðinn og niðurstöður nýjustu rannsókna sem haft geta áhrif á byggingaraðferðir. Til að mynda er þar fjallað um rannsóknir á rakaskemmdum og ýmsum ábendingum komið til byggingaraðila byggt á reynslu sem orðið hefur til hérlendis. Blöðin eru mikið notuð af fagmönnum í byggingariðnaði og húseigendum til viðmiðunar um viðhald og gerð mannvirkja.

Flutningi útgáfunnar til HMS er ætlað að stuðla að bættri upplýsingamiðlun og nýsköpun innan byggingariðnaðarins og styðja við uppbyggingu á öruggari, hagkvæmari og vistvænni mannvirkjum. HMS hefur nú þegar mjög víðtækt hlutverk í miðlun upplýsinga um húsnæðis- og mannvirkjamarkaðinn og hyggst stofnunin stórefla fræðslu og kynningu á niðurstöðum byggingarannsókna. Þá verður eftirlit með byggingavörum einnig aukið og að áhersla lögð á að prófanir þess verði í samræmi við alþjóðlegar kröfur.

 

Nánar um flutning Rb blaðanna til HMS:

Rb-blöðin eru eitt elsta tímarit landsins en það var fyrst gefið út árið 1973 sem þýðir að þau hafa komið út í tæpa hálfa öld. Þá eru Rb-blöðin líklega eitt fárra útgáfurita sem hefur verið viðfangsefni meistararitgerðar í Háskóla Íslands en það gerðist árið 2019 þegar Helga Halldórsdóttir skrifaði um tímaritið og útgáfusögu þess í tengslum við nám sitt í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

Með flutningi RB-blaðanna til HMS verður tekið næsta skref í þessari upplýsingamiðlun með þéttari og markvissari útgáfu skýrslna og rannsóknarniðurstaðna og með nýtingu nýrra miðla við fræðslu til almennings og fagfólks.

Heimild: HMS.is