Eigendur hússins við Bræðraborgarstíg 1 stefna á að rífa húsið á allra næstu dögum.
Þrír létust þegar húsið brann í júní í fyrra.
Þorpið-vistfélag keypti húsið í desember í fyrra en rústirnar hafa staðið óhreyfðar í allan þennan tíma.
Íbúar í hverfinu hafa ekki verið á eitt sáttir við ástand hússins, en í nýlegri færslu á vef íbúahóps Vesturbæjar eru birtar myndir af húsinu.
Þar kemur fram að ekki hafi verið hreinsað til og enn væru eigur fórnarlamba brunans þar inni. Matvæli væru á borðum og í skápum, ekki hafi verið tekið af rúmunum og að ólykt leggi frá húsinu.

Tók tíma að fá tilskilin leyfi
Runólfur Ágústsson, þróunar- og verkefnastjóri hjá Þorpinu-vistfélagi, segir að þau vonist til að geta rifið húsið á morgun, en annars á allra næstu dögum. Þau hafi strax við kaup hússins sótt um öll nauðsynleg leyfi til niðurrifs frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Það hafi verið tímafrekt ferli.

Leyfin séu nú loks öll komin að undanskildu leyfi til þrengingar á götu á meðan niðurrifið stendur yfir. Hann á von á að það berist á morgun, föstudag eða mánudag og þá sé ekkert því til fyrirstöðu að hefja verkið.
Heimild: Mbl.is