Home Fréttir Í fréttum Forstjóri Landsnets segir Suðurnesjalínu 2 í lagalegu tómarómi

Forstjóri Landsnets segir Suðurnesjalínu 2 í lagalegu tómarómi

74
0
Guðmundur I Ásmundsson er forstjóri Landsnets.

„Við veltum fyrir okkur hvort stjórnsýsluferlið í kringum uppbyggingu flutningskerfisins virki sem skyldi,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

<>

Guðmundur I Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að gera þurfi úrbætur á stjórnsýsluferlum vegna uppbyggingar á flutningskerfi raforku.

Sveitarfélagið Vogar hafnaði nýverið Landsneti um framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2, en áður höfðu Grindavík, Hafnarfjarðarbær og Reykjanesbær veitt framkvæmdaleyfi fyrir línunni. Uppbygging Suðurnesjalínu 2 hefur því staðnæmst, enn á ný.

„Við veltum fyrir okkur hvort stjórnsýsluferlið í kringum uppbyggingu flutningskerfisins virki sem skyldi,“ segir Guðmundur. Landsnet hefur nú kært höfnun Voga til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

„Verði niðurstaðan sú að ákvörðun Voga um að hafna okkur um framkvæmdaleyfi verði breytt, hvað þá? Þýðir það að við fáum framkvæmdaleyfið eða fer málið aftur til efnislegrar meðferðar sveitastjórnar Voga? Geta þau hafnað okkur um framkvæmdaleyfi aftur og þá á einhverjum öðrum forsendum.

Um þetta ríkir mikil óvissa í lagarammanum og við köllum eftir því að reglur verði gerðar skýrari og skilvirkari. Þetta er í raun allt í lausu lofti núna og ákveðnu lagalegu tómarúmi.“

Forstjórinn segir að Landsnet verði að fá framkvæmdaleyfi til að uppfylla lögbundið hlutverk sitt um uppbyggingu og viðhald flutningskerfi raforku.

Hins vegar vandist málið þegar sveitarfélög veiti ekki framkvæmdaleyfi: „Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að taka stjórnsýsluákvarðanir sem þessar,“ segir Guðmundur.

Sem áður segir mun ákvörðun Voga fara fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hljóti málið flýtimeðferð mun úrskurður liggja fyrir eftir þrjá til fjóra mánuði.

Heimild: Frettabladid.is