Home Fréttir Í fréttum Heilsársvegur um Öxi líklega boðinn út í kringum áramót

Heilsársvegur um Öxi líklega boðinn út í kringum áramót

86
0
Mynd: Andrés Skúlason
Samgönguráðherra segir talsverðan áhuga á öllum þeim vegaframkvæmdum sem ríkið hyggst ráðast í í samvinnu við einkaaðila.
Markaðsdagur vegna heilsársvegar yfir Öxi verður í lok sumars og eiga framkvæmdir að hefjast á næsta ári.

Núverandi malarvegur um Öxi er lokaður í dag enda er þar engin regluleg vetrarþjónusta. Þó að vegurinn sé hlykkjóttur og brattur malarvegur og slæmur í bleytutíð kýs stór hluti vegfarenda að stytta sé leið um Öxi þegar vegurinn er opinn á sumrin.

<>

Íbúar á Djúpavogi hafa ekki síst barist fyrir heilsársvegi en um Öxi er minna en klukkustundar akstur til að sækja þjónustu og flugsamgöngur til Egilsstaða.

Öxi átti að vera hluti af flýtiframkvæmdum vegna skerðingar á þorskafla 2007. Öllum þeim framkvæmdum er lokið nema Öxi.

Krafan um heilsársveg fékk mikinn meðbyr með sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi.

Umhverfismati og skipulagi er lokið og forhönnun er á lokastigi. Vegagerðin hóf síðasta sumar að undirbúa verkið, gera jarðvegsathuganir og finna hentugar námur fyrir framkvæmdina.

Kostnaður hefur verið áætlaður 2,8 milljarðar og á helmingur að koma frá einkaaðila sem myndi ná fjárfestingunni til baka með veggjöldum.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að sérstakur markaðsdagur með áhugasömum fjárfestum verði haldinn í lok sumars. „Og í framhaldi af því þá fer útboðsferli fram bæði um hönnunina og framkvæmdina.

Með þessu þá fáum við breiðari þátttöku og fleiri sérfræðinga bæði að hönnun og framkvæmd og síðan er stefnt að útboði á veginum um Öxi um áramót og framkvæmdir hæfust þá á næsta ári,“ segir Sigurður Ingi.

Aðspurður um hvort heyrst hafi af áhuga á að taka þátt í framkvæmdinni segir Sigurður Ingi. „Eins og ég segi; markaðsdagurinn verður í lok sumars.

Alveg frá því þessi leið var kynnt, þessi samvinnuleið, þá hafa fjölmargir aðilar sett sig í samband og hafa áhuga á að taka þátt í öllum þeim verkefnum sem þar eru,“ Sigurður Ingi Jóhannsson.

Heimild: Ruv.is