Home Fréttir Í fréttum Deila um ábyrgð á vatnstjóninu í Háskóla Íslands

Deila um ábyrgð á vatnstjóninu í Háskóla Íslands

191
0
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Veitur og verkfræðistofuna Mannvit greinir á um hvort fyrirtækjanna beri ábyrgð á tjóni sem varð í Háskóla Íslands í janúar, þegar yfir tvö þúsund tonn af vatni fossuðu inn í byggingar skólans.
Vitnaleiðslur hafa farið fram vegna málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. Viðgerðir í háskólanum hefjast ekki fyrr en greitt hefur verið úr ágreiningnum.

Sextíu ára gömul kaldavatnsleiðsla við Suðurgötu gaf sig aðfaranótt 21. janúar með þeim afleiðingum að vatn flæddi um stóran hluta háskólasvæðisins og inn í byggingar háskólans. Verið var að endurnýja lögnina þegar óhappið varð.

<>

Talið er að tjónið hlaupi á hundruðum milljóna króna. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands liggur ekki enn fyrir hver ber ábyrgð á tjóninu. Ekki verður ráðist í viðgerðir á byggingunum fyrr en það liggur fyrir.

Dómkvaddir matsmenn kallaðir til

Samkvæmt upplýsingum frá Veitum fóru fram vitnaleiðslur í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tveimur vikum.

Það var gert að beiðni Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta. Vitnaleiðslurnar voru liður í að afla nánari upplýsinga um atburðarásina sem varð til þess að vatn flæddi inn í byggingarnar.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er ágreiningur uppi um hvort Veitur eða ásverkfræðistofan Mannvit beri ábyrgð á tjóninu, en Mannvit veitti ráðgjöf við framkvæmdirnar á Suðurgötu.

Framkvæmdin var á vegum Veitna en SS Verktak var verktaki í verkinu. VÍS er tryggingafélag Veitna, Mannvit er tryggt hjá TM og Vörður annast tryggingar fyrir SS Verktak. Öll félögin hafa haft aðkomu að málinu á einhverju stigi.

Búið er að skipa dómkvadda matsmenn til þess að meta tjónið og orsök þess. Samkvæmt upplýsingum frá Veitum er niðurstöðu þeirra beðið.

Heimild: Ruv.is