Sextíu ára gömul kaldavatnsleiðsla við Suðurgötu gaf sig aðfaranótt 21. janúar með þeim afleiðingum að vatn flæddi um stóran hluta háskólasvæðisins og inn í byggingar háskólans. Verið var að endurnýja lögnina þegar óhappið varð.
Talið er að tjónið hlaupi á hundruðum milljóna króna. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands liggur ekki enn fyrir hver ber ábyrgð á tjóninu. Ekki verður ráðist í viðgerðir á byggingunum fyrr en það liggur fyrir.
Dómkvaddir matsmenn kallaðir til
Samkvæmt upplýsingum frá Veitum fóru fram vitnaleiðslur í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tveimur vikum.
Það var gert að beiðni Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta. Vitnaleiðslurnar voru liður í að afla nánari upplýsinga um atburðarásina sem varð til þess að vatn flæddi inn í byggingarnar.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er ágreiningur uppi um hvort Veitur eða ásverkfræðistofan Mannvit beri ábyrgð á tjóninu, en Mannvit veitti ráðgjöf við framkvæmdirnar á Suðurgötu.
Framkvæmdin var á vegum Veitna en SS Verktak var verktaki í verkinu. VÍS er tryggingafélag Veitna, Mannvit er tryggt hjá TM og Vörður annast tryggingar fyrir SS Verktak. Öll félögin hafa haft aðkomu að málinu á einhverju stigi.
Búið er að skipa dómkvadda matsmenn til þess að meta tjónið og orsök þess. Samkvæmt upplýsingum frá Veitum er niðurstöðu þeirra beðið.
Heimild: Ruv.is