Home Fréttir Í fréttum Engin verkefni Munck á Íslandi

Engin verkefni Munck á Íslandi

381
0
"Þetta pirrar mig óendanlega" sagði Hans Christian Munck við fjölmiðla um hans fyrsta ár í taprekstri. Aðsend mynd

Tap verktakafélagsins hélt áfram á síðasta rekstrarári en danska samstæðan snéri tveggja ára taprekstri í hagnað.

<>

Munck á Íslandi skilaði enn umfangsmiklu tapi á síðasta rekstrarári sem lauk 30. september síðastliðinn, að því er fram kemur í skýringum með ársreikningi Munck samstæðunnar í Danmörku.

Fram að síðasta rekstrarári hafði Munck á Íslandi tapað 4,5 milljörðum á þeim þremur árum sem fyrirtækið hafði starfað hér á landi.

Munck samstæðan hagnaðist um tæpa 41 milljón danskra króna á síðasta rekstrarári eftir að hafa tapað samtals um 151 milljón danskra króna tvö rekstrarár á undan.

Í skýringum er tap verktakafyrirtækisins á Íslandi rakið til uppgjöra við viðskiptavini og áframhaldandi taps af verkefnum.

Þá kemur fram að nú séu engin verkefni í gangi á Íslandi og er þar af leiðandi búist við að hagnaður samstæðunnar verði enn meiri á því rekstrarári sem nú er hafið.

Munck á Íslandi hóf starfsemi í ársbyrjun 2017 eftir að danska félagið Munck Gruppen keypti verktakafyrirtækið LNS Sögu hér á landi.

Hans Christian Munck, forstjóri samstæðunnar, höfðaði á sínum tíma mál gegn seljanda LNS sögu, hvar hann sagði að of lágt hafði verið boðið í verkefni félagsins á Íslandi.

„Þetta pirrar mig óendanlega” sagði Hans Christian við danska fjölmiðla um hans fyrsta ár í taprekstri frá því að hann hóf atvinnurekstur tvítugur.

Heimild: Vb.is