Sú sveitarstjórn sem tekur við eftir kosningar starfar fram að næstu sveitarstjórnarkosningum árið 2022, eða í tvö ár, og er óhætt að segja að sjálf sameining þessara fjögurra sveitarfélaga verði eitt stærsta verkefnið á þessum tíma. Íbúar völdu nafnið Múlaþing í ráðgefandi kosningu. Oddvitarnir mætast í Speglinum á Rás 1 og Rás 2 klukkan 18 í kvöld.
Hvernig á að minnka umferðarþunga í gegnum miðbæ Egilsstaða?
Mikilvæg umræða og jafnvel ákvarðanir eru fram undan í skipulagsmálum á Héraði í tengslum við væntanleg Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar. Sveitarstjórn þarf að ræða hvort nýta skuli tækifæri í tengslum við veglagningu úr göngunum til að færa þungaumferð frá miðbæ Egilsstaða. Þeir eru stærsti byggðakjarni sveitarfélagsins og miðstöð verslunar og þjónustu á Austurlandi. Mikil bílaumferð og umferð stórra flutningabíla niður Fagradalsbraut þykir takmarka möguleika á gera miðbæinn aðlaðandi. Ekkert af framboðunum fimm vill umbylta nýsamþykktu miðbæjarskipulagi en öll vilja skoða leiðir til að draga úr umferð í gegnum miðbæinn. Þar eru framboðin þó ekki sammála um hvaða leið skuli verða fyrir valinu.
Vegagerðin lagði til þrjár leiðir fyrir umferð úr Fjarðarheiðargöngum sem hefði áhrif á aðra umferð; suður fyrir Egilsstaði, norður fyrir Egilsstaði við Melshorn og svo áfram eftir Fagradalsbraut í gegnum miðbæinn.
Öll framboðin vilja helst skoða suðurleið nema Miðflokkurinn sem telur norðurleið eina koma til greina. Hún samrýmist best langtímaaðalskipulagi þar sem íbúðabyggð teygi sig til suðurs en iðnaðarsvæði til norðurs. Flokkurinn leggst alfarið gegn því að þungaflutningar skeri íbúðabyggð og miðbæ,“ segir í svari Miðflokksins.
Framsóknarflokkurinn telur hins vegar að suðurleiðin hafi marga kosti. Hún leiði umferð meðfram miðbænum en ekki í gegnum hann og gæti losað bæjarbúa nánast alveg við þungaumferð gegnum Egilsstaði. Málið sé í athugun og frekari upplýsinga þörf áður en endanleg ákvörðun verði tekin. Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknar, bætti því við í umræðum um þetta mál á opnum framboðsfundi að líklega væri nægt pláss á suðursvæðinu fyrir bæði íbúabyggð og þessa vegtengingu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill beina þungaflutningum suður fyrir Egilsstaði en telur að léttari umferð gæti að hluta farið áfram um Fagradalsbraut eftir núverandi vegi.
VG vill einnig færa umferðina suður fyrir þéttbýlið og tengja þannig umferðina við iðnaðarhverfið og beina þungaflutningum úr miðbænum.
Austurlistinn vitnar í greiningu vinnuhóps á Héraði sem hafi metið það svo að skynsamlegast væri að færa umferð suður fyrir þéttbýlið. Héraðslistinn, eins konar forveri Austurlistans, hafi stutt slíka tillögu. Norðurleiðin myndi lengja leiðina milli Héraðs og Fjarðabyggðar um um það bil fjóra kílómetra og sé þar að auki dýrasta leiðin. Þar þyrfti að smíða tvær nýjar brýr.
Hvar á ný Lagarfljótsbrú að koma?
Umferð um Egilsstaði og norður í land fer yfir Lagarfljótsbrú sem er komin til ára sinna og er ný brú í langtímasamgönguáætlun. Við spurðum framboðin hvort þau hefðu skoðun á því hvar ný Lagarfljótsbrú ætti að koma og þar sker Miðflokkurinn sig líka úr. Flokkurinn vill skoða alla kosti í tengslum við langtímaaðalskipulag sem hann vill láta vinna. Þar á meðal að ný brú komi við Finnstaði sem er talsvert utar en núverandi brú sem flokkurinn vill að verði nýtt áfram sem innanbæjarbrú á milli Egilsstaða og Fellabæjar.
Vinstri græn vilja valkostagreiningu, umhverfismat og víðtækt samráð við íbúa. „Mikilvægt er að ekki verði fórnað dýrmætu byggingarlandi í Fellabæ,“ segir í svari VG.
Austurlistinn hefur ekki markað stefnu um hvar brú eigi að koma á Lagarfljóti en staðsetningin verði að vera í samhengi við stækkunarmöguleika Egilsstaðaflugvallar.
Sjálfstæðisflokkurinn bendir á að aðalskipulag geri ráð fyrir að brúarstæðið verði á sama stað Fellamegin en hliðrist aðeins Egilsstaðamegin. Framboðið hafi ekki aðrar hugmyndir „enda myndi staðsetning annars staðar væntanlega lengja ferðatíma, sérstaklega fyrir gangandi og hjólandi umferð.“
Svar framsóknarmanna er einfalt: „Helst á að brúa þannig að annar endi sé norðan megin, hinn austan megin og þeir mætist í miðjunni…“.
Skólasameiningar ekki á dagskrá
Við spurðum framboðin líka um skólamál; aðallega um mögulegar sameiningar skóla og langa bið eftir greiningu hjá Skólaskrifstofu Austurlands. Framboðin voru samdóma um að skólasameiningar væru ekki á dagskrá enda má segja að slíkt hafi verið niðurstaða í undirbúningsvinnu fyrir sameininguna, eins konar sameiningarsáttmáli. Þess í stað vilja þau auka flæði og samvinnu á milli skóla og að sami kennari geti kennt við marga skóla.
Sum framboð vilja draga sveitarfélagið út úr Skólaskrifstofu Austurlands
Framboðin vilja hins vegar fara ólíkar leiðir til að taka á málum Skólaskrifstofu Austurlands og stytta biðtíma eftir greiningu þar. Sjö sveitarfélög á Austurlandi reka saman skólaskrifstofuna; sveitarfélögin fjögur sem sameinast auk Fjarðabyggðar, Vopnafjarðarhrepps og Fljótsdalshrepps.
Framsókn, Miðflokkur og Austurlistinn vilja öll að nýtt sveitarfélag dragi sig út úr Skólaskrifstofu Austurlands. Austurlistinn vill að það komi sér sjálft upp þjónustu sambærilegri og skólaskrifstofan hefur boðið. Í svari Framsóknar kemur fram að þegar sveitarfélögin á Austurlandi séu orðin fjögur og tvö þeirra verulega mikið stærri en hin sé að þeirra mati engin ástæða til að viðhalda Skólaskrifstofu Austurlands. „Eðlilegra er að stærri sveitarfélögin efli sjálf sína skólaþjónustu og taki yfir þessi verkefni,“ segir í svari Framsóknar. Og Miðflokkurinn telur að frumgreiningar ættu að vera í höndum sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins. Þar myndi fjármagnið sem nú fer í skólaskrifstofuna mögulega nýtast betur vegna samlegðaráhrifa og það gæti verið stoð fyrir grunn- og leikskóla.
Sjálfstæðisflokkur og VG nefna ekki að nýtt sveitarfélag yfirtaki verkefni skólaskrifstofunnar. Sjálfstæðisflokkur vill að starfsemin verði tekin til sérstakrar skoðunar. „Mikilvægt er að sú skoðun sé í nánum tengslum við starfsfólk enda býr mikill mannauður innan skrifstofunnar sem ekki má fara forgörðum. Leita ber allra leiða til að þjónustan nýtist sem best og kalli slíkt á aukið fjármagn verður að bregðast við því,“ segir í svari Sjálfstæðismanna. Svar VG er afdráttarlaust: „Við viljum auka fjármagn til Skólaskrifstofu til að koma til móts við þennan vanda.“
Hvernig á að hvetja til húsbygginga?
Við beindum opinni spurningu til framboðanna um hvaða leiðir þau sæju til að meira yrði byggt af húsnæði í sveitarfélaginu?
VG vill fara blandaða leið, til dæmis með óhagnaðardrifnum leigufélögum sem safni í viðhaldssjóði, eingreiðslum og framboði af fjölbreyttum byggingarlóðum í skipulagi. Þá sé mikilvægt að fá fleiri félagslegar íbúðir í sveitarfélagið.
Fram kemur í svari Austurlistans að á Borgarfirði og Seyðisfirði standi yfir vinna í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Á Djúpavogi sé þörf fyrir þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Mögulega gæti slíkt gerst í gegnum Ársali og/eða í samstarfi við ríkið. Á Egilsstöðum vinni Ársalir að því að byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða í Lagarási og verið sé að skoða aðkomu félagsmálaráðuneytisins. Á Seyðisfirði hafi gatnagerðargjöld verið felld niður með þeim árangri að tvö íbúðarhús séu að rísa í fyrsta sinn í rúman áratug. Það mætti innleiða víðar í sveitarfélaginu til að hvetja til nýbygginga.
Miðflokkurinn vísar í stefnuskrá sína þar sem hann nefnir ýmsar leiðir til að auka atvinnu og fjölga íbúum í sveitarfélaginu. „Slíkt mun sjálfkrafa mynda hvata fyrir verktaka að byggja meira af íbúðarhúsnæði,“ segir í svari Miðflokksins.
Framsókn telur að með sameiningunni opnist möguleikar á eflingu skipulagssviðsins og aukinni sérhæfingu þar. „Þá getum við unnið heimavinnuna okkar betur, átt meira til af deiliskipulögðum svæðum með lóðum til að freista verktaka. Einnig eru ýmsir möguleikar í verkefnum með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Slík verkefni hafa verið í mótun á Seyðisfirði og Borgarfirði og einnig á Héraði.“
Og Sjálfstæðisflokkur vill tryggja framboð af fjölbreyttum lóðum og skilvirka þjónustu við húsbyggjendur.
Og hvað með börnin sem fara á milli staða?
Við spurðum framboðin líka hvernig þau vildu auðvelda íbúum, ekki síst börnum, að sækja þjónustu á borð við íþróttaæfingar og fleira á milli byggðakjarna í sveitarfélaginu?
VG vill bæta samgöngur og almenningssamgöngur en minnka álag á iðkendum og horfa til þess að þjálfarar geti líka farið á milli staða. Svo yrði hægt að halda samæfingar.
Sjálfstæðismenn vilja auðvelda börnum sem þurfa að fara um lengri veg að sækja æfingar. „Mögulega með akstursstyrkjum, samfellu við skólastarf eða í tengslum við almenningssamgöngur.“
Framsóknarfólk vill finna lausnir í samstarfi við íþróttafélögin og bendir á að nýverið hafi verið tekið upp viðbótartómstundaframlag til þeirra sem sækja tómstundir í þéttbýli úr dreifbýlinu. „Við viljum gjarnan gera meira í þá veru.“
Austurlistinn vill samræma frístundastyrki fyrir íþróttir og annað tómstundastarf og tryggja akstursstyrki fyrir þau börn sem koma lengra að. Einnig koma á rútuferðum milli byggðakjarna.
Miðflokkur vill kalla eftir tillögum frá þeim sem nýta sér slíka þjónustu og skoða þann möguleika að koma á akstursstyrkjum.
VG gegn frekari virkjanaáformum
Við beindum opinni spurningu til framboðanna um hvað þau teldu brýnast að gera í umhverfismálum í nýju sveitarfélagi.
VG vill að fyrsta verk verði að móta umhverfis- og loftlagsstefnu fyrir nýtt sveitarfélag. „Þá tökum við náttúruverndina alvarlega og viljum koma í veg fyrir frekari virkjanaáform á svæðinu.“ Á framboðsfundi í menntaskólanum á Egilsstöðum kom fram í máli Jódísar Skúladóttur oddvita VG að sveitarfélagið ætti miklar auðlindir í óspilltum víðernum: „Það er búið að greina arðsemina af því að vernda okkar náttúru og hún mun skila okkur meira en græðgissjónarmið.“
Austurlistinn vill að ferlið sem snertir fyrirhugaða virkjun í Skriðdal, Geitdalsárvirkjun, verði opnað fyrir íbúum. „Þar virðist margt vera óljóst og erfitt að átta sig á hvert er stefnt. Auka þarf sjálfbærni í öllum byggðakjörnum til dæmis með aukinni flokkun sorps og innleiðingu vistvænna orkugjafa. Þá leggjum við mikið upp úr því að ásýnd staðanna verði sem best.“
Sjálfstæðisflokkurinn vill draga úr losun og virkja í þágu umhverfis. „Í nýju sameinuðu sveitarfélaga, sem er víðfeðmt, eru miklir möguleikar hvað varðar nýtingu jarðhita, vatns-, vind- og sólarorku. Einnig er mögulegt sóknarfæri í lífmassa sem orkulind í tengslum við aukaafurðir úr skógrækt og landbúnaði.“ Þá sé brýnt að endurskoða sorphirðu, flokkun og moltugerð.
Framsókn nefnir líka samræmingu sorphirðu og flokkunar og að minna fari til urðunar. „Þá er mikilvægt að bæta innviði fyrir rafbíla en þannig getur sveitarfélagið stuðlað að hærra hlutfalli þeirra í bílaflotanum og að sveitarfélagið sitji ekki eftir í þeirri framþróun. Einnig viljum við gjarnan að unnið verði markvisst að friðlýsingu einstakra náttúruperlna í sveitarfélaginu í góðu samráði við landeigendur, svæðunum til verndar og samfélaginu til hagsbóta.“
Miðflokkur vill gera langtímaáætlun um skólphreinsun og að byggð verði sameiginleg, mengunarlaus sorpbrennslustöð fyrir allt landið. Einnig gera áætlun um uppbyggingu, umhirðu og verndun grænna svæða, bæta ásýnd í sveitarfélaginu með fagfólki svo sem landslagsarkitektum og garðyrkjufræðingum. Og gæta meðalhófs í umhverfismálum.
Draumur um garðyrkjufræðing
Framboðin voru spurð hvort þau vildi stofna ný embætti í nýju sveitarfélagi. Austurlistinn og Framsókn vilja ráða garðyrkjufræðing og auka mannafla í skipulagsmálum en Framsókn bendir á að nú þegar hafi verið ráðinn yfirmaður á umhverfis- og framkvæmdasvið og skoða þurfi verkefni sviðsins betur í framhaldinu. Miðflokkur leggur áherslu á að ráða sérstakan atvinnu- og markaðsfulltrúa til að markaðssetja sveitarfélagið fyrir atvinnurekendur og fjárfesta. Einnig vill flokkurinn kalla til fagfólk í garðyrkju eins og fram hefur komið. Sjálfstæðisflokkur segist ekki hafa uppi hugmyndir um stofnun nýrra embætta að sinni en telur að áherslubreytingar séu nauðsynlegar á ýmsum sviðum og segir að til greina komi að ráða garðyrkjufræðing yfir sumartímann. VG vill setjast yfir þetta að loknum kosningum. Meta þörf fyrir ný embætti og störf innan sveitarfélagsins.
Hver verður bæjarstjóri?
Á framboðsfundi Austurfréttar og Fljótsdalshéraðs í Menntaskólanum á Egilsstöðum fengu framboðin spurningar frá fólki sem horfði á í gegnum netið. Þar var meðal annars spurt hvort framboðin vildu auglýsa eftir bæjarstjóra. VG vill að staðan verði auglýst. Austurlisti og sjálfstæðismenn sögðust ekki hafa ákveðna afstöðu til ráðningar bæjarstjóra, slíkt þyrfti að ráðast í meirihlutaviðræðum. Framsókn og Miðflokkur voru sammála um að Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, héldi áfram að minnsta kosti næstu tvö ár, fram að næstu kosningum. Mikilvægt væri að hafa Björn í starfi bæjarstjóra til að tryggja að sameiningin gangi vel fyrir sig. „Nóg verður raskið og rugli,“ sagði Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins, og Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknar sagði snjallt að auglýsa ekki eftir bæjarstjóra fyrir aðeins tæplega tveggja ára kjörtímabil.
Hvað með dreifbýlið?
Við spurðum framboðin meðal annars út í mögulegar aðgerðir til að bæta lífsgæði í dreifbýli og efla það sem búsetukost. Öll framboð vilja klára ljósleiðartengingar og þriggja fasa rafmagn og lækka dreifikostnað rafmagns.
Framsókn vill semja við Vegagerðina um bætta vetrarþjónustu á vegum og styðja við tómstundaþátttöku barna. „Við viljum skoða möguleikann á því að einstök svæði í dreifbýli geti gengið inn í einhvers konar sambærilegt verkefni og Brothættar byggðir til að stuðla að þróun og nýtingu tækifæra þar.“
Sjálfstæðisflokkur nefnir sérstaklega fyrir dreifbýli að samgöngur þar verði að standa undir nútímakröfum.
VG nefnir einnig samgöngur og að sveitarfélagið þurfi að þrýsta á að komið sé betur til móts við þá sem fullvinna afurðir og gera þeim kleift að koma vöru sinni á markað með hagkvæmari hætti. „Til að við getum verið sjálfbærari á Austurlandi þarf að bæta flutningsleiðir innan svæðis svo að hægt sé að koma vörum beint í verslanir og auðvelda atvinnurekendum vöruskipti innan sveitarfélagsins.“
Austurlistinn leggur aðaláherslu á að klára lagningu þriggja fasa rafmagns, ljósleiðara og aðra innviði og vill einnig styðja við nýsköpun í landbúnaði.
Miðflokkur vill blása til sóknar fyrir dreifbýlið þannig að landbúnaður gleymist ekki og að hlúð verði með öllum tiltækum ráðum að nýsköpun í dreifbýli.
Þessi umfjöllum er ekki tæmandi og eru íbúar hvattir til að kynna sér stefnuskrár flokkanna.