Home Fréttir Í fréttum Verktakafyrirtæki vill 248 milljónir vegna knatthúss

Verktakafyrirtæki vill 248 milljónir vegna knatthúss

399
0
Mynd: RÚV/Eddi
ÞG verktakar hafa stefnt Hafnarfjarðarbæ vegna ákvörðunar bæjarráðs um að hafna tilboði fyrirtækisins í knatthús í Kaplakrika.
Fyrirtækið krefst þess að bænum verði gert að greiða því nærri 248 milljónir með vöxtum en til vara að bærinn borgi kostnað fyrirtækisins við þátttöku í útboðinu.

Stefnan var lögð fram á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í morgun.

<>

Hafnarfjarðarbær auglýsti eftir tilboðum í hönnun og byggingu knatthúss í Kaplakrika í byrjun árs 2018.

Þrjú tilboð bárust og reyndust ÞG verktakar eiga lægsta tilboðið sem hljóðaði upp á tæpa 1,3 milljarða.

Bæjaryfirvöld ákváðu hins vegar að hafna öllum tilboðum þar sem gert hefði verið ráð fyrir 720 milljónum í fjárhagsáætlun bæjarins.

Fram kemur í stefnu ÞG verktaka að sú upphæð hafi verið byggð á reynslu Fimleikafélags Hafnarfjarðar, FH; frá byggingu knatthúss sem tekið var í notkun árið 2005 eða 13 árum áður en umrætt útboð fór fram.

Í stefnunni er einnig vitnað til úrskurðar kærunefndar útboðsmála í málinu.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun bæjaryfirvalda um að hafna tilboðinu hefði verið ólögmæt.

Þá segir í stefnunni að ÞG verktakar og Hafnarfjarðarbær hafi ekki komið sér saman um fjárhæð skaðabóta þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Stefnan verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness þann 2. september.

Heimild: Ruv.is