Home Fréttir Í fréttum Nýir stúdentagarðar í Brautarholti

Nýir stúdentagarðar í Brautarholti

180
0

Garðarnir eru staðsettir í Brautarholti nr 7, á milli Mjölnisholts og Ásholts. Þar munu rísa tvö hús, alls um 4.700 m2, með 102 litlum íbúðum fyrir barnlausa stúdenta. Um byggingu sér Jáverk ehf en THG arkitektar eru aðalhönnuðir.

Það er stefna Reykjavíkurborgar að auka framboð húsnæðis fyrir alla samfélagshópa í öllum hverfum borgarinnar. Það er meðal markmiða að taka þátt í byggingu 400 nemendaíbúða svo bygging stúdentagarða í Brautarholt er stórt skref að því marki.

Staðsetning garðanna er á margan hátt hentug fyrir stúdenta við Háskóla Íslands sem sækjast eftir að búa í nágrenni við skólann og miðsvæðis í borginni. Brautarholt er í göngufæri við húsnæði HÍ í Stakkahlíð og það er heldur ekki langt að ganga eða hjóla til og frá háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni.  Frá Brautarholti er stutt í almenningssamgöngur og alla þjónustu.

Stefnt er að því að húsin verði tilbúin í ágúst 2016. Með framkvæmdunum er leitast við að svara eftirspurn eftir stúdentaíbúðum en 800 námsmenn voru á biðlista eftir húsnæði að úthlutun lokinni sl. haust og útlit er fyrir að þeir verði töluvert fleiri nú í haust.

Leigueiningar á Stúdentagörðum eru í dag um 1.100 og í þeim búa um 1.800 manns, stúdentar við HÍ og fjölskyldur þeirra.

Stefna FS er að halda uppbyggingu Stúdentagarða áfram þar til allir stúdentar sem kjósa að búa á görðum eigi þess kost. Talið er að FS þurfi að eiga húsnæði fyrir um 15% stúdenta við HÍ eða rúmlega 2.000 íbúðir til að uppfylla þarfir næstu ára.

Nýju stúdentagarðarnir verða fjármagnaðir að 90% hluta með lánum frá Íbúðalánasjóði en það sem á vantar leggur Félagsstofnun stúdenta til.

Heimild: Reykjavíkurborg

Previous articleOpnun útboðs: Landsvirkjun „Þeistareykjavirkjun – Skiljur“
Next article11.08.2015 Strandavegur (643), Hálsgata – Svanshóll