Home Fréttir Í fréttum Breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes boðin út í næstu viku

Breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes boðin út í næstu viku

145
0
Mynd: STÖÐ 2/SKJÁSKOT.

Fyrsti áfanginn í breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes verður boðinn í næstu viku.

<>

Miðað er við að framkvæmdir hefjist síðsumars og að verkinu í heild verði lokið eftir þrjú ár. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Þjóðvegurinn um Kjalarnes hefur verið markaður alvarlegum umferðarslysum og hafði Vegagerðin vonast til að hefja endurbætur í fyrrasumar.

Skipulagsstofnun greip þá í taumana og úrskurðaði að breikkun vegarins skyldi fara í umhverfismat en bæði Vegagerðin og sveitarfélög á Vesturlandi kærðu þann úrskurð.

Varmhólar, þar sem byrjað verður að breikka veginn, sjást ofarlega til vinstri.
STÖÐ 2/SKJÁSKOT.

Þótt úrskurður Skipulagsstofnunar hafi í vor verið lýstur ógildur vegna formgalla fór umhverfismatið engu að síður fram og hefur stofnunin núna lýst áliti sínu á framkvæmdinni.

Þar segir Skipulagsstofnun að svo umfangsmikil uppbygging vegamannvirkja muni hafa talsvert neikvæð áhrif á landslag og ásýnd.

Mikið rask verði á gróðri en stofnunin tekur fram að það sé einkum á gróðurlendi sem mótað sé af mannavöldum og hafi ekki mikið verndargildi.

Líkur aukist á því að keyrt verði á fugla þar sem aukning verði á hraða og umferð. Þá muni búsvæði fugla tapast vegna nýrra hliðarvega og framkvæmdirnar muni raska fornleifum. Skipulagsstofnun viðurkennir þó að þær muni hafa jákvæð áhrif á umferðaröryggi.

Núna þegar umhverfismatið er að baki er Vegagerðinni ekkert að vanbúnaði að hefjast handa og verður fyrsti áfanginn, kafli frá Varmhólum að Vallá, boðinn út á mánudag, og tilboð opnuð 11. ágúst.

Næsti áfangi, frá Vallá að Hvalfjarðarvegi, á svo að fara í útboð í haust, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Alls á að breikka Vesturlandsveg á níu kílómetra kafla í tveir plús einn veg með aðskildum akreinum. Þrjú hringtorg verða á leiðinni; við Móa, Grundarhverfi og Hvalfjarðarveg.

Samhliða breikkuninni verður vegtengingum fækkað með gerð hliðarvega upp á tæpa tólf kílómetra. Verklok eru áætluð vorið 2023.

Heimild: Visir.is