Home Fréttir Í fréttum Byggingarstjóri segir kostnaðinn mun meiri en 22 þúsund

Byggingarstjóri segir kostnaðinn mun meiri en 22 þúsund

356
0
Skjáskot af Rúv.is Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Byggingarstjóri Hótels Reykjavíkur við Lækjargötu segir að lagt hafi verið í mikil útgjöld við að tryggja öryggi vegfarenda og 22 þúsund króna leyfisgjald sé alls ekki allur kostnaðurinn við lokun tveggja akreina.

<>

Sjö milljarða framkvæmdir við Hótel Reykjavík hafa að mestu verið stöðvaðar vegna efnahagsástandsins og fram kom í fréttum í gær að verktakinn hafi aðeins þurft að greiða tvisvar sinnum 22 þúsund króna leyfisgjald fyrir afnot af tveimur akreinum Lækjargötunnar í tvö ár.

Ólafur Sæmundsson, byggingarstjóri hótelsins, segir af og frá að það sé allur kostnaðurinn.

„Það bara er ekki akkúrat þannig. Innan þessa svæðis sem við höfum eru átta bílastæði. Fyrir þau borgum við borginni, í gegnum bílastæðasjóð, 108 þúsund á mánuði, og það erum við búnir að gera í þrjú ár, þannig að þar eru nú nokkrar milljónir komnar í borgarsjóð fyrir þetta,“ segir hann.

Þarf allt stofugólfið til að setja saman IKEA-kommóðu
„Til að tryggja öryggi vegfarenda og þeirra sem eru að byggja húsið þá þurfum við náttúrulega athafnasvæði. Þú þekkir það og þið öll ef þið þurfið að setja saman eina litla kommóðu frá IKEA – þið þurfið jafnvel allt stofugólfið til að setja hana saman,“ segir Ólafur.

Það athafnasvæði hafi verið hannað af verkfræðistofu í samstarfi við borgina. „Það kostaði byggingaraðilann um það bil fimmtán milljónir að setja það upp, og við eigum eftir að taka það niður. Við höfum fært það til í sambandi við Menningarnótt og annað,“ segir byggingarstjórinn.

Fornleifauppgröftur hafi auk þess kostað verkefnið 100 milljónir. Ólafur segist ekki hafa orðið var við umferðahnúta eða óhöpp við það að beina umferð aðra leið og hann segir borgina munu græða á öllu saman.

„Þessi bygging, með byggingarleyfisgjöldunum og fasteignagjöldunum, fyrstu tíu árin, er að skila borgarsjóði þúsund milljónum,“ segir hann.

„Þetta er A4-bréf“
Innan borgarinnar stendur til að breyta þessu 22 þúsund króna leyfisgjaldi, sem yrði yfirleitt til hækkunar, enda þykir það lágt.
Ertu ósammála því?
„Ja, þetta bréf, þetta er A4-bréf og eitthvað hefur jú kostað starfsmanninn að fylla það út,“ segir Ólafur.

„Ég ætla ekkert að segja ykkur hvort mér finnst leyfið sem slíkt dýrt eða ekki, því að ég veit að við erum að – eins og ég er búinn að þylja upp fyrir þig – leggja í mjög mikinn kostnað til að geta gert þetta,“ segir Ólafur Sæmundsson.

Heimild: Ruv.is